Ekki er í forgangi hjá Landsvirkjun að selja raforku í nýja stóriðju tengda málmiðnaði eða annarri hrávöru.
Þetta kemur fram í svörum fyrirtækisins við fyrirspurn Kjarnans um hvort Landsvirkjun sé í viðræðum við þýska sementsrisann Heidelberg Materials um afhendingu á raforku sem þarf til að knýja verksmiðju í Þorlákshöfn þar sem móberg úr Litla-Sandfelli yrði malað.
Fyrirspurnin er tilkomin vegna þessara orða talsmanns Heidelberg á Íslandi, Þorsteins Víglundssonar, á íbúafundi í Þorlákshöfn í síðustu viku: „Það er gert ráð fyrir um það bil 40 megavatta raforkunotkun í fyrsta áfanga verkefnisins og það gæti aukist í 60 megavött í öðrum áfanga. Þetta er ekki risa orkunotandi en vissulega stór, það er alveg rétt.“ Í þessu samhengi má nefna að Kröfluvirkjun er 60 megavött (MW) að afli.
Á fundinum var spurt: „Er búið að tryggja þessa orku?“
„Ja, það er eitt af því sem er í umræðunni,“ svaraði Þorsteinn.
Þá var spurt: „Er til raforka í kerfinu fyrir þetta verkefni?“
„Það er til rafmagn í kerfinu já, og það er til rafmagn hjá orkuframleiðendum,“ svaraði hann. „Þannig að við höfum bæði verið að ræða við Landsnet og raforkuframleiðendur varðandi aðgang að rafmagni. Það er auðvitað grundvallarforsenda þess að hægt sé að reisa verksmiðju sem þessa.“
Kjarninn sendi fyrirspurn á Landsvirkjun, HS Orku og Orku náttúrunnar um hvort viðræður væru í gangi við Heidelberg Materials vegna móbergsverksmiðjunnar, hvort að raforka væri til í kerfinu líkt og Þorsteinn hélt fram eða hvort ráðast þyrfti í nýja vinnslu – ef samið yrði við Heidelberg yfir höfuð.
„Vegna trúnaðar í viðskiptum getur Landsvirkjun almennt ekki tjáð sig opinberlega um viðræður við einstaka núverandi eða mögulega nýja viðskiptavini,“ segir í svari Ragnhildar Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.
Hún segir Landsvirkjun þó geta lýst því yfir opinberlega að sem stendur sjái fyrirtækið mikla eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku en takmarkað mögulegt nýtt framboð til að mæta þeirri eftirspurn næstu 4-6 ár eða svo. „Fyrirtækið þarf því að forgangsraða þeim samtölum sem nú eru tekin um mögulega orkusölu og í því samhengi hefur fyrirtækið aukinheldur nýlega lýst því yfir opinberlega að sem stendur er ekki í forgangi hjá fyrirtækinu að selja raforku í nýja stóriðju tengda málmiðnaði eða annarri hrávöru.“
Í verksmiðju Heidelberg í Þorlákshöfn yrði móberg sem unnið yrði úr Litla-Sandfelli, þurrkað og malað og flutt út til meginlands Evrópu sem íblöndunarefni í sement. Hér er því um hrávöru að ræða.
Í svörum Orku náttúrunnar við þessum sömu spurningum segir að engar viðræður hafi átt sér stað við Heidelberg. Íslenskt ráðgjafafyrirtæki sem vinni fyrir umrædda aðila hafi hins vegar óskað eftir fundi með Orku náttúrunnar til þess að kynna hugmyndir. Þá kynningu hafa sérfræðingar ON fengið „en næstu skref hafa ekki verið ákveðin“.
Almennt þá funda fyrirtæki sem hafa hug á að vera með starfsemi á Íslandi með orkufyrirtækjunum „og við tökum samtöl við þau sem óska eftir því,“ segir í svari ON. „Þegar og ef viðræður fara lengra þá eru fyrirtækin skoðuð með tilliti til þeirrar starfsemi sem þau eru í, áhættu og fleiri þátta.“
En yrði hægt að afhenda Heidelberg Materials 40-60 MW að mati ON án þess að ráðast í frekari orkuvinnslu?
„Orka náttúrunnar þekkir ekki umrætt fyrirtæki nægjanlega vel og hefur ekki skoðað áform þeirra með þeim hætti að hægt sé að svara þessu. Það er margt sem spilar inn í við svona ákvarðanir m.a. magn, verð og samningstími.“
Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku segir eftirspurn eftir raforku í augnablikinu „gríðarlega“. Hann segir fjölmarga aðila sem hafa áhuga á því að byggja upp starfsemi á Íslandi í mismunandi geirum. „Almennt tjáir HS Orka sig ekki um einstök verkefni á frumstigi en getur þó staðfest að við höfum átt í óformlegum viðræðum við forsvarsmenn Heidelberg, eins og ég geri ráð fyrir að gildi um alla aðra raforkuframleiðendur á Íslandi.“
Umfram orka er takmörkuð
En eru til 40-60 MW í kerfinu líkt og talsmaður Heidelberg sagði?
„Það er erfitt að svara þessari spurningu með já eða nei,“ segir Jóhann Snorri. „Við leggjum ekki sjálfstætt mat á hversu mikil raforka er í heild í kerfinu hverju sinni en í ljósi orkuskorts síðustu ára liggur fyrir að umfram orka er takmörkuð, hvort sem um er að ræða til orkuskipta eða annarra nýrra verkefna. Hvað varðar afhendingu til Heidelberg miðað við núverandi framleiðslugetu í kerfinu, þá fer það fyrst og fremst eftir tímasetningu og stöðu annarra raforkukaupasamninga.“