Í ljósi vaxandi loftslagsáhættu þarf að styrkja verulega innviði stofnanafjárfesta og langímafjárfesta, svo sem lífeyrissjóða, til að þeir geti beitt hluthafavaldi sínu, ef þeir eiga að geta staðið við eigin langtímaskuldbindingar. Þetta skrifar Guðrún Johnsen, hagfræðingur og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í jólablaði Vísbendingar, sem kom út síðasta föstudag.
Í grein sinni fer Guðrún yfir áhrif langtímafjárfesta sem vilja sporna gegn hlýnun jarðar og hvort það sé æskilegra fyrir þá að fjárfesta einungis í svokölluðum grænum fyrirtækjum – sem draga úr hlýnun loftslags – eða með því að reyna að breyta rekstri fyrirtækja í þeirra eigu.
Samkvæmt henni hefur mikill félagslegur og stjórnmálalegur þrýstingur verið á langtímafjárfesta að stokka upp verðbréfasöfnin sín og færa fjármagn frá fyrirtækjum sem stuðla að hlýnun loftslags – eða svokölluðum brúnum fyrirtækjum – yfir til grænna fyrirtækja. Þó þetta hljómi vel bendir Guðrún þó á að það sé óvíst hvaða áhrif slík uppstokkun hafi á óumhverfisvænu fyrirtækin, þar sem nýir fjárfestar koma í stað þeirra sem fyrir voru.
Með minni fjárfestingum í brúnum fyrirtækjum ætti þó fjármagnskostnaður þeirra að hækka, sem gæti leitt til þrýstings á að þau breyti rekstri sínum. Guðrún segir þó mikið þurfa til þess að það gerðist að einhverju marki, en samkvæmt henni þyrftu 80 prósent fjármagns í heiminum að vera í grænum fyrirtækjum til að fjármagnskostnaður brúnna fyrirtækja myndi hækka um eitt prósent.
Blaðið birtist ef þú þrýstir á forsíðuna
Þá vitnar Guðrún í erlenda rannsókn um samfélagsleg áhrif fjárfesta, en samkvæmt henni væri betra fyrir þá að halda í og jafnvel auka við fjárfestingar í brúnum iðnaði og beita réttindum sínum sem hluthafar til að hafa áhrif á fjárfestingarstefnu fyrirtækjanna í gegnum stjórnarhætti félagslins heldur en að selja þau.
Þar sem auðvelt er að finna aðra kaupendur hlutabréfa, jafnvel þótt þau séu í mengandi fyrirtækjum, segir Guðrún að fjárfestarnir hafi meiri áhrif ef þau vera og stýra, heldur en að „kjósa með fótunum“ og selja sinn hlut í þeim. Til þess að það geti gerst þyrftu innviðir lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta að vera styrktir, svo þeir geti staðið við skuldbindingar sínar til langs tíma. „Það er ekki lengur í boði að vera hlutlaus hluthafi,“ bætti hún við.