Þjóðskrá mun ekki lengur nýskrá börn í þjóðskrá með eiginnafnið stúlka eða drengur og verða börn því framvegis nýskráð í þjóðskrá eingöngu með kenninafn, þ.e. föður- eða móðurnafn eða ættarnafn, þar til nafngjöf hefur farið fram. Breytingin hefur þegar tekið gildi.
Þetta kemur fram á vefsíðu Þjóðskrár Íslands.
Ekki eru lengur gefin út vegabréf með slíkum eiginnöfnum, stúlka eða drengur, og er þessi breyting því til samræmingar þar á, að því er fram kemur hjá Þjóðskrá.
Frumvörp um kynrænt sjálfræði samþykkt á Alþingi í fyrra
Alþingi samþykkti í lok árs í fyrra frumvarp sem tryggir fólki rétt til að breyta skráningu kyns og samhliða því þá nafni miðist við 15 ára aldur en það var 18 ár. Þá var einnig gert ráð fyrir að börn yngri en 15 ára gætu breytt opinberri skráningu kyns síns með fulltingi forsjáraðila sinna.
Enn fremur var samþykkt frumvarp á sama tíma þar sem lagt var til að meginreglan yrði sú að varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngri en 16 ára, sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, skyldu einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins. Væri barnið ófært sökum ungs aldurs að veita slíkt samþykki eða af öðrum orsökum ófært um að láta vilja sinn í ljós, skyldi heimilt að breyta kyneinkennum varanlega ef heilsufarslegar ástæður krefjast þess. En þá þyrfti ítarlegt mat á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra að liggja fyrir.