Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, hefur enn ekki skilað inn frekari athugasemdum við frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis, á samskiptum hennar og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, í tengslum við rannsókn lekamálsins svokallaða. Hanna Birna óskaði eftir fresti í desember til að koma að frekari sjónarmiðum við frumkvæðisathugun umboðsmanns, en sá frestur rennur út 8. janúar.
Embætti umboðsmanns staðfestir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að Hanna Birna hafi enn ekki skilað inn frekari sjónarmiðum, og því liggi ekki fyrir hvenær niðurstaða umboðsmanns í málinu verður birt.
Umboðsmaður áformaði að birta niðurstöðu frumkvæðisathugunarinnar í nóvember, en dráttur varð á því eftir að embættinu barst ábending um tiltekið atriði í tengslum við athugunina. Í byrjun desember lauk svo umboðsmaður athugun sinni á ábendingunni, en í henni fólst að afla frekari upplýsinga og fá afstöðu fráfarandi ráðherra til þeirra. Nokkrum dögum síðar greindi umboðsmaður frá því að fyrrverandi innanríkisráðherra hefði óskað eftir fyrrgreindum fresti til að koma að frekari sjónarmiðum við frumkvæðisathugun umboðsmanns.