Vísitala Þjóðskrár yfir fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,6 prósent milli mánaða og 13,7 prósent milli ára í apríl síðastliðnum. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum af heimasíðu Þjóðskrár.
Samkvæmt frétt frá stofnuninni sem birtist í gær hafði hún vanmetið hækkun vísitölunnar í mars vegna villu í gögnunum. Hækkunin í mars reyndist vera rúmlega tvöfalt meiri en áður var talið, eða um 3,3 prósent milli mánaða og 8,9 prósent milli ára.
Tólf mánaða hækkun vísitölunnar var hins vegar enn meiri í apríl og nam þá 13,7 prósentum, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Þetta er mesta hækkun sem mælst hefur síðan í desember árið 2017, þegar mikill þrýstingur var á íbúðamarkaðnum á svæðinu.
Áframhaldandi hækkun væntanleg
Í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem birtist fyrr í dag, er gert ráð fyrir því að íbúðaverð hækki um 10,5 prósent í ár, milli ársmeðaltal, en að það hægi svo verulega á hækkunartaktinum næstu ár.
Samkvæmt bankanum skapar skörp hækkun íbúðaverðs síðustu mánuði þrýsting á verðbólgu. Útlit sé fyrir áframhaldandi spennu á fasteignamarkaði á meðan vextir eru í sögulegu lágmarki, kaupmáttur mikill og lánsfjár gott, sem eykur eftirspurn. Enn fremur er útlit fyrir að framboðið aukist ekki í takti við eftirspurnina, en búist er við samdrætti í íbúðafjárfestingu næstu tvö árin.