Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun að það skipti gríðarlega miklu máli að stíga inn gagnvart börnum og barnafjölskyldum vegna þess ástands sem komið er upp vegna aukinnar verðbólgu og hærri vaxta. „Það skiptir líka máli að koma inn í efnahagsmálin með aðgerðir til að létta undir með tekjulágum heimilum.“
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði ráðherrann meðal annars hvað ríkisstjórnin þyrfti að gera til þess að verja fólk og börn sem þurfa að lifa efnislegan skort vegna efnahagsástands í landinu.
Þingmaðurinn byrjaði á því að vitna í nýleg könnu Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, en hann sagði könnunina veita innsýn í skuggalegan veruleika margs fólks sem hefur þurft að glíma við þungar byrðar í heimsfaraldrinum.
„Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að stórir hópar hafi það slæmt, bæði fjárhagslega og andlega, og miklu verr en fyrir einu ári síðan. Einstæðir foreldrar, lágtekjuhópar, innflytjendur og ungt barnafólk stendur verr að vígi en áður. Niðurstöðurnar gefa ekki bara mynd af stöðu fullorðins fólks heldur segja líka sögu af fjölda barna sem búa ekki við nægilega góð lífsskilyrði. Þúsundir barna líða efnislegan skort í okkar ríka landi, fá ekki nógu næringarríkan mat, ekki nauðsynlegan fatnað eða aðgengi að tómstundum.
Ofan í allt þetta mælist verðbólga nú óvenjulega há og Seðlabanki Íslands hefur gripið til stýrivaxtahækkana um tvö prósentustig á skömmum tíma. Það er ljóst að þessi þróun mun koma miklu verr við viðkvæma hópa og það er hætt við að hækkandi afborganir húsnæðislána, hækkandi leiguverð, dýrari matarkarfa, geti sligað mörg heimili og fleiri börn þurfi að lifa efnislegan skort,“ sagði hann.
Logi spurði ráðherra hvaða aðgerðir hann sæi fyrir sér að ríkisstjórnin þyrfti að grípa til til þess að verja stöðu þessa fólks og barna.
„Verður ríkisstjórnin einfaldlega ekki að skerast strax í leikinn með aðgerðum í þágu hópa í erfiðri stöðu og líta þá til þingsályktunartillagna sem Samfylkingin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar lögðu hér fram í gær eða fyrradag?“ spurði hann.
Kynnti í ríkisstjórn þá fyrirætlan að fara í sérstakan endurreisnarpakka gagnvart börnum og ungu fólki
Ásmundur Einar þakkaði þingmanni fyrir fyrirspurnina. „Á margan hátt tek ég undir með háttvirtum þingmanni um stöðu barna og barnafjölskyldna og þar þurfum við ávallt að gera betur. Það er engu að síður svo að í gegnum faraldurinn höfum við gert talsvert mikið þegar kemur að málefnum barna og barnafjölskyldna. Það hefur verið horft til þess í félagslegum aðgerðum, það hefur einnig verið horft til þess í gegnum atvinnuleysistryggingakerfið og í gegnum félagsmálaráðuneytið með sérstökum greiðslum til barnafjölskyldna.
Í fyrsta skipti hefur ríkið stigið inn með sérstaka tómstundastyrki gagnvart börnum á tekjulágum heimilum sem var úrræði sem var tímabundið sett á í heimsfaraldrinum og svo mætti áfram telja. Þegar þessum faraldri slotar og við sjáum þau efnahagsáhrif sem fylgja í framhaldinu, þá er alveg ljóst að það þurfa að fylgja áframhaldandi aðgerðir,“ sagði hann.
Ráðherrann sagðist meðal annars hafa kynnt í ríkisstjórn síðasta föstudag þá fyrirætlan mennta- og barnamálaráðuneytis að fara í sérstakan endurreisnarpakka gagnvart börnum og ungu fólki þegar heimsfaraldrinum slotar.
„Þær endurreisnaraðgerðir munu þurfa að vera á félagslegum grunni en líka á menntalegum grunni því það er alveg ljóst að þessi faraldur hefur haft áhrif og ég tek þar undir með hv. þingmanni. Við þurfum að halda utan um okkar viðkvæmustu borgara í ákveðinn tíma eftir að faraldrinum slotar. Ég hyggst eiga gott samstarf við alla helstu hagsmunaaðila við uppbyggingu á slíkum endurreisnarpakka. Það voru mjög góðar umræður um þetta í ríkisstjórn og ég veit að önnur ráðuneyti er að horfa á málin með sambærilegum hætti,“ sagði hann.
Ekki nóg að vera með „falleg frumvörp sem ekkert fjármagn fylgir“
Logi kom í framhaldinu í annað sinn í pontu og sagði að hann væri ekki að spyrja ráðherra hvaða vegi hann hefði keyrt í gegnum tíðina. Hann væri að spyrja hvert hann ætlaði að halda.
„Það er ekki nóg að vera með fögur orð eða leggja jafnvel fram falleg frumvörp sem ekkert fjármagn fylgir. Það nægir að nefna frístundastyrkina og annað sem hefur bara ekki dugað. Ég er að spyrja út af þeim bráða vanda sem er að skapast vegna hárrar verðbólgu og hækkandi vaxta sem mun bitna sérstaklega illa á ungum fjölskyldum og barnafólki. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera? Hvað telur hann að ríkisstjórnin eigi að gera?“ spurði þingmaðurinn.
Stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða
Ásmundur Einar svaraði á ný og sagði að ástæða þess að hann taldi mikilvægt að ræða þær aðgerðir sem hefur verið ráðist í væri sú að Logi hefði látið að því liggja að ekkert hefði verið gert og ekkert hefði verið fjármagnað.
„Hann gerði það aftur nú í seinni fyrirspurn og sagði að hér hefðu verið lögð fram fögur frumvörp sem ekki hefðu verið fjármögnuð. Það er einfaldlega rangt,“ sagði hann. Logi greip fram í úr þingsalnum og bað ráðherra að svara spurningunni.
„Virðulegur forseti, það er mjög erfitt að tala hér þegar þingmaðurinn getur ekki verið rólegur í þingsalnum á meðan,“ sagði Ásmundur Einar.
Hann hélt áfram og sagði að það skipti gríðarlega miklu máli að stíga inn gagnvart börnum og barnafjölskyldum varðandi þá þætti sem hann nefndi í fyrri ræðu sinni og ætluðu stjórnvöld að halda þeim aðgerðum áfram.
„Það skiptir líka máli að koma inn í efnahagsmálin með aðgerðir til að létta undir með tekjulágum heimilum. Ég tek hjartanlega undir með viðskiptaráðherra sem ræddi það í fjölmiðlum í morgun að við ættum að grípa til félagslegra aðgerða. Þar eigum við að horfa til allra mögulegra aðgerða sem hægt er að grípa til og skoða fjármögnun með það í huga að fjármálakerfið grípi þar inn í.“
Tók hann undir með Loga og sagði að stjórnvöld þyrftu að fara í aðgerðir. „Við þurfum að forma þær en þær þurfa að vera á víðtækum grunni.“