Formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur ekki rétt að breyta aðkomu Íslands að viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi, til að forðast innflutningsbann. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Fiskútflytjendur eru uggandi vegna stöðunnar. Málið verður tekið fyrir á fundi utanríkismálanefndar í næstu viku. Hagsmunir Íslands snúa öðru fremur að makrílviðskiptum en Rússlandsmarkaður hefur verið mikilvægasti einstaki markaður fyrir þá tegund á undanförnum árum, en árlegur útflutningur hefur numið meira en 20 milljörðum króna.
Ísland hefur enn ekki verið sett á bannlista Rússa, þrátt fyrir að fjölmiðlafulltrúi Pútíns hafi sagt það koma til greina, eftir að Evrópusambandið framlengdi viðskiptaþvinganir gegn Rússum í vikunni. Ísland hefur frá upphafi stutt þær viðskiptaþvinganir og þannig verið hluti af bandlagi vestrænna ríkja í aðgerðum gegn Rússum. „Ísland tók þá ákvörðun strax snemma á síðasta ári að taka þátt í þeim aðgerðum sem bæði samstarfsríki okkar á evrópska efnahagssvæðinu og í Norður-Ameríku hafa gripið til vegna innlimunar Krímskaga og afskipta Rússa af málefnum Úkraínu,“ segir Birgir Ármannsson í viðtali við RÚV.