Það er aldeilis ekki sama hvernig gólfflísar snúa. Því hefur safnaðarnefndin í Glumsø, lítilli sókn á Sjálandi, fengið að kynnast. Danska menningarmálastofnunin hefur fyrirskipað að flísar sem búið var að leggja í safnaðarheimili kirkjunnar verði teknar upp og þær lagðar aftur. Það kostar stórfé, sem söfnuðurinn á ekki til.
Flísar voru fyrst lagðar á gólf safnaðarheimilisins árið 1977 þegar gerðar voru miklar endurbætur á prestsetrinu, sem að hluta var friðað árið 1954 og heyrir af þeim sökum undir Menningarmálastofnunina hvað breytingar varðar. Fyrir tveimur árum ætlaði safnaðarnefndin aftur að ráðast í aðgerðir, þar á meðal var ætlunin að einangra gólfið í safnaðarheimilinu. Flísarnar sem nefndin valdi þótti Menningarmálastofnuninni ekki hæfa húsinu og því var ákveðið að kaupa annars konar, og mun dýrari flísar, sem Menningarmálastofnunin lagði blessun sína yfir. Það tók stofnunina hinsvegar langan tíma að senda "blessunar" bréfið og vegna þess að safnaðarnefndin var komin í tímaþröng með verkið var bæði búið að kaupa flísarnar og láta leggja þær á gólfið þegar bréf Menningarmálastofnunarinnar barst nefndinni haustið 2013.
Þótt stofnunin væri ánægð með nýju flísarnar var annað upp á teningnum hvað lagninguna varðaði. Flísarnar voru semsé lagðar lagðar í 45 gráður á hornréttan flöt rýmisins "diagonalt" en ekki hornrétt. Þetta gat Menningarmálastofnunin ekki með nokkru móti samþykkt og fyrirskipaði að flísarnar skyldu teknar upp og lagðar þannig að þær lægju hornrétt. Í bréfi til safnaðarnefndarinnar sagði stofnunin að flísarnar "virki framandi í rýminu" og það gæti ekki gengið.
Formaður safnaðarnefndarinnar, Leif von Gersdorff, sagði í viðtali við Kristeligt Dagblad að ef taka flísarnar upp og leggja á nýjan leik myndi kosta stórfé. Fé sem söfnuðurinn á ekki til. Biskupinn í Hróarskelduumdæmi tók í sama streng og kvaðst undrast afstöðu Menningarmálastofnunarinnar og bendir á að hér sé ekki um gamalt gólf að ræða sem hafi af þeim sökum sérstakt gildi.
Þar að auki hafi Menningarmálastofnunin ekki svarað fyrirspurnum varðandi flísarnar fyrr en seint og um síðir, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið spurt. "Vegna þess að nota þurfti húsið var ekki hægt að bíða endalaust," sagði biskup. Menningarmálastofnunin viðurkennir að dregist hafa að svara erindi safnaðarnefndarinnar en það sé ekki sama og samþykki.
Nú, tveimur árum síðar eru flísarnar enn á gólfi safnaðarheimilisins. Menningarmálastofnunin situr við sinn keip, flísarnar skulu teknar upp og lagðar hornrétt, safnaðarnefndin vill ekki una þeim úrskurði og hótaði Menningarmálastofnuninni að fara með málið fyrir dómstóla. Af því hefur ekki orðið enn sem komið er. Formaður safnaðarnefndarinnar sagði í samtali við pistlaskrifara að nú hefði nefndin verið boðuð á fund í Menningarmálastofnuninni í september og hann vonaðist til að þar fyndist lausn sem allir gætu sætt sig við.