Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar ræddu nýlega sölu á 22,5 prósenta hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Ráðherrann sagði meðal annars að það væri algerlega ljóst af hennar hálfu að þegar ríkiseign á borð við Íslandsbanka er seld þá ætti að liggja fyrir hverjir keyptu. „Það eru upplýsingar sem íslenskur almenningur á heimtingu á.“
Logi hóf fyrirspurn sína á því að lesa upp það sem ritað er í hvítbók um íslenskt fjármálakerfi en þar segir meðal annars: „Heilbrigt eignarhald er mikilvæg forsenda þess að bankakerfið haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Vitum ekki af hverju fjárfestarnir voru valdir
Þingmaðurinn sagði að til að fá slíka fjárfesta gæti vissulega verið réttlætanlegt að gefa afslátt frá markaðsverði eins og gert var í nýafstaðinni sölu á hlut í Íslandsbanka.
„Það er hins vegar óhætt að fullyrða að það gæti nokkurrar tortryggni eftir þessa síðustu sölu Íslandsbanka. Svo virðist sem nokkrir mjög litlir aðilar hafi verið handvaldir og boðið að kaupa með afslætti og auk þess heyrast sögur af því að erlendum aðilum sem keyptu í fyrsta söluferli og seldu strax aftur hafi verið hleypt aftur inn núna, sem sagt svokallaðir spákaupmenn.
Við vitum ekkert hverjir þetta eru, af hverju þeir voru valdir frekar en aðrir, hvort þeir hafi ábyrgðarkennd eða fjárhagslega burði eða hvort þeir hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi eins og talað er um í hvítbókinni. Traust er mikilvægt sérhverju fjármálakerfi og það sem helst skapar vantraust er leynd og pukur í kringum mikla hagsmuni. Það er óásættanlegt að stærsti eigandi Íslandsbanka, íslenska þjóðin, fái ekki að vita allar staðreyndir málsins, ekki síst hverjir fengu að kaupa, á hvaða forsendum og af hverju þeir voru sérvaldir,“ sagði hann.
Logi sagði enn fremur að það blasti við „augljós spilling“ og einungis spurning hversu víðtæk hún væri. Því spurði hann Katrínu hvað hún ætlaði að gera í málinu. „Ætlar hún að láta þetta viðgangast?“ spurði hann.
Réttast að Alþingi geri viðeigandi lagabreytingar ef upplýsingar fást ekki
Katrín svaraði og þakkaði Loga fyrir að taka þetta mál upp. „Um margt get ég verið sammála honum þó að ég sé ekki sammála því að við blasi að hér sé um augljósa spillingu að ræða. Vandinn er sá að það ríkir ekki fullt gagnsæi um ferlið og það gengur ekki og þar erum við háttvirtur þingmaður sammála. Nú var bæði fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd kynnt tillaga Bankasýslunnar sem fer með eignarhluta ríkisins í bönkunum. Það var gert á sínum tíma til að tryggja ákveðna armslengd, eins og það heitir, frá hinu pólitíska valdi. Það ferli var kynnt fyrir nefndunum og í sjálfu sér liggur algjörlega fyrir að meirihluti beggja nefnda mælti með því að hafist yrði handa við að ráðast í framhald á sölu.“
Hún sagði að í upplýsingum sem Bankasýslan hefur birt kæmi fram fjöldi og dreifing fjárfesta, að 190 innlendir og 19 erlendir aðilar hefðu tekið þátt og innlendir lífeyrissjóðir hefðu verið langstærstir. Væri það sömuleiðis mat Bankasýslunnar að sölumeðferðin hefði verið í fullu samræmi við tillögur stofnunarinnar frá 20. janúar og kynningar á þeim.
„Mér finnst rétt að ítreka hér að það var Bankasýslan sem mat hverjir væru skilgreindir langtímafjárfestar af því að háttvirtur þingmaður spyr um það. Hins vegar er það algerlega ljóst af minni hálfu að þegar ríkiseign á borð við Íslandsbanka er seld þá á að liggja fyrir hverjir keyptu. Það eru upplýsingar sem íslenskur almenningur á heimtingu á. Ef einhver tæknileg atriði valda því að Bankasýsla ríkisins telur sig ekki geta birt þær upplýsingar tel ég réttast að Alþingi geri viðeigandi breytingar á lagaumhverfi þannig að unnt sé að birta þær því að annað gengur ekki.
Þessum sjónarmiðum hef ég komið skýrt á framfæri við stjórn og framkvæmdastjóra Bankasýslu ríkisins, á ráðherranefndarfundi um efnahagsmál, sem haldinn var á föstudag, því það liggur algerlega fyrir að þegar um er að ræða aðferðafræði á borð við þessa þá mun alltaf vakna tortryggni ef ekki liggur fyrir hverjir keyptu,“ sagði Katrín.
Mun ráðherrann rannsaka málið?
Logi kom aftur í pontu og sagði að það hefðu verið hans orð að spilling blasti við.
„En ég spyr hvort hún telji að þær upplýsingar sem komið hafa fram gefi tilefni til að rannsaka hvort spilling hafi átt sér stað. Eins langar mig að heyra hvort hæstvirtur forsætisráðherra telur að sporin hræði nú og það þurfi að skoða framhaldið. Hvaða skref verða stigin næst? Eru til dæmis núverandi aðilar sem sáu um söluna fyrir okkar hönd hæfir til þess að selja aftur ef það á að halda áfram að selja bankann? Eða hyggst hæstvirtur forsætisráðherra beita sér fyrir því að aðrar leiðir verði notaðar og annað fólk fengið að borðinu?“ spurði hann og bætti við: „Mun hæstvirtur forsætisráðherra rannsaka hvort spilling hafi átt sér stað?“
Fyrst að sjá hverjir keyptu
Katrín svaraði í annað sinn og sagði að þær upplýsingar sem hafa verið birtar, almenningi og Alþingi – og ráðherrum þar með talið, sýndu að afslátturinn margumræddi sem hefði verið til umræðu væri umtalsvert lægri afsláttur en við mætti búast í ferli sem byggir á þessari aðferðafræði.
„Meðal annars hefur verið bent á það að afsláttur hafi að meðaltali verið um 6,4 prósent hjá sambærilegum evrópskum félögum en hann hafi orðið hærri eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Þetta er eitt af því sem mér finnst mikilvægt að komi fram,“ sagði hún.
Katrín telur að þau verði að tryggja algjört gagnsæi um þessa sölu og hver keypti. Þá sé hægt að leggja mat á það hvort rétt sé að afla frekari upplýsinga um málið.
Benti hún á að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefði óskað eftir lista með þeim fjárfestum sem keyptu í útboðinu með bréfi til Bankasýslunnar þann 30. mars.
„Ég tel fulla ástæðu til þess að þessar upplýsingar verði afhentar. Það hefur verið óskað eftir áliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um hvort einhverjar lagalegar hindranir séu í þeim vegi og sé það svo þá tel ég eðlilegt að Alþingi taki það til sérstakrar skoðunar,“ sagði ráðherrann.