Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ekki verið upplýst formlega um að einhver ráðherra í ríkisstjórn hafi sýnt af sér vanvirðandi framkomu, svo sem einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi.
Að því er varðar óformleg samskipti segir forsætisráðherra hins vegar að stundum sé leitað til hennar „í krafti vináttu og persónulegra tengsla og á hún oft og tíðum trúnaðarsamtöl við fólk, m.a. um samskipti á jafn fjölmennum vinnustað og Stjórnarráð Íslands er. Ráðherra hefur litið svo á að þegar leitað er til hennar sem trúnaðarvinar þá sé um persónuleg málefni að ræða sem alla jafna kalli ekki á að hún setji þau í farveg stjórnsýslumála, nema óskað sé eftir því.“
Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið.
Ríkisstjórnin ekki fjölskipað stjórnvald
Í svari sínu segir Katrín að það sé rétt að árétta að ríkisstjórn Íslands sé ekki fjölskipað stjórnvald og ráðherrar í ríkisstjórn Íslands beri óskoraða ábyrgð á þeim stjórnarframkvæmdum sem heyra undir ráðuneyti þeirra. Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra beri hver og einn ráðherra ábyrgð á skipulagi, rekstri og starfsmannahaldi sinna ráðuneyta. „Framangreind viðbragðsáætlun er skýr um þann farveg sem mál eiga að fara í og hvert starfsmenn eiga að leita þegar þeir hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað. Þá er skýrt kveðið á um að allar upplýsingar um málsmeðferðina séu trúnaðarmál og vistaðar með öðrum viðkvæmum persónugreinanlegum mannauðsgögnum.“
Samkvæmt EKKO-stefnu Stjórnarráðsins skal starfsumhverfi og menning í ráðuneytum vera þannig að starfsfólk sé öruggt og því líði vel. Í svari Katrínar segir að í því sambandi sé mikilvægt að stuðla að andlegri jafnt sem líkamlegri heilsu á vinnustað. „Það er gert með markvissu forvarnastarfi, skýrum verkferlum og stuðningi. Samkvæmt stefnunni er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi undir engum kringumstæðum umborið og eru allar ábendingar um slíkt teknar alvarlega. Þá skal í EKKO-tilvikum fylgja tiltekinni forvarna- og viðbragðsáætlun sem nánar er útfærð í stefnunni.“