Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort ríkisstjórnin og þjóðaröryggisráð væru með plan til að bregðast við efnahagslegum áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu. Sigmundur vísaði meðal annars í orð Joes Biden Bandaríkjaforseta á NATO-þingi í liðinni viku þar sem hann sagði að vænta mætti fæðuskorts á Vesturlöndum.
Sigmundur sagðist vonast eftir alvöru umræðu um fæðuöryggi í framhaldinu, máli sem samflokksmönnum hans hafi verið mjög hugleikið. Annað mál á þingfundi dagsins er einmitt sérstök umræða um fæðuöryggi þjóðarinnar.
Aðgerðir til skamms og lengri tíma nauðsynlegar
Forsætisráðherra sagði mikilvægt að bregðast við fæðuöryggi til skemmri og lengri tíma. Nú þegar er hafin vinna við að skilgreina nauðsynlegar birgðir í landinu. „Ekki bara þegar kemur að fæðuöryggi heldur líka þegar kemur að öðrum þáttum; lyfjum, íhlutum, eins og háttvirtur þingmaður nefndi, sem skipta máli fyrir framleiðslugreinar, sem og olíu.“
Katrín sagði mat líkt og þetta fara reglulega fram en að það liggi fyrir að Ísland sé viðkvæmara fyrir á sumum stöðum en öðrum. „Ég get nefnt sem dæmi að við sjáum okkur sjálfum einungis fyrir um 1% af því korni sem við neytum. Það er auðvitað það sem við sjáum fram á nú, að þessi innrás geti haft gríðarleg áhrif á kornframleiðslu í heiminum,“ sagði Katrín. Ekki sé þó útlit fyrir að fæðuskorts sé að vænta á því sviði fyrr en á næsta ári, sé litið til upplýsinga frá alþjóðlegum stofnunum á þessu sviði.
Varðandi langtímastefnu í þessum málum sagði Katrín að núverandi ríkisstjórn vilji efla innlenda matvælaframleiðslu og vísaði hún í aukinn stuðning til garðyrkjubænda. „Langtímastefnan á að vera sú að við séum í auknum mæli sjálfum okkur nóg þegar kemur að matvælaframleiðslu til að tryggja hér fæðuöryggi. Í því felast mikil sóknarfæri, að ég tel, fyrir Ísland, að horfa til aukinnar matvælaframleiðslu hér á landi, ekki bara fyrir okkar eigin neyslu heldur líka til útflutnings,“ sagði Katrín.
Ástandið hvatning til að flýta orkuskiptum
Sigmundur sagðist ánægður með stefnu forsætisráðherra. „En vandinn hefur oft verið sá að stefnunni fylgja ekki alltaf aðgerðir,“ sagði Sigmundur, sem ítrekaði spurningu sína um til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til og hvort lækkun á olíuverði, þó ekki nema tímabundin, kæmi til greina?
Þá spurði hann einnig hvort forsætisráðherra sé til í að að minnsta kosti velta því upp að íslenska ríkið kaupi hrávöru til að treysta stöðuna enn frekar.
Forsætisráðherra svaraði því ekki beint en sagði ríkisstjórnina hafa sýnt að hún sé reiðubúin til að grípa til ýmissa aðgerða til að bregðast við óvæntum atburðum á borð við stríðið í Úkraínu. Varðandi hækkandi olíuverð sagði forsætisráðherra það vera hvatningu til að flýta orkuskiptum. „En ég tel líka mikilvægt að við mætum þessum afleiðingum með aðgerðum sem beinast að tilteknum hópum, ekki endilega flötum aðgerðum sem dreifast jafnt á alla heldur einmitt svona markmiðssettum aðgerðum.“