Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tókust á í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag um hvort vilji ríkisstjórnarinnar um að reisa nýja þjóðarhöll í innanhússíþróttum á kjörtímabilinu væri nógu skýr.
Einungis fjórir mánuðir eru síðan að forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallarinnar. Samkvæmt henni var stefnt að því að framkvæmdum myndi ljúka árið 2025 og kostnaðarskipting milli ríkis og borgar átti að taka mið af nýtingu mannvirkisins.
Vilji formanna stjórnarflokkanna óljós
Þorgerður Katrín sagði að af orðum innviðaráðherra að dæma væri alveg ljóst að verið væri að slá þjóðarhöllinni á frest. „Ekki alveg að slátra henni en fresta henni,“ sagði hún.
„Síðan kemur hæstvirtur fjármálaráðherra og segir að það sé nóg af fjárfestingum og til nóg af fjármagni en var samt frekar óljós. Tveir formenn stjórnarflokka sem tala mjög óljóst í þessu mikla hagsmunamáli fyrir íþróttahreyfinguna,“ hélt Þorgerður Katrín áfram.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í byrjun mánaðarins er gert ráð fyrir að ríkissjóður setji 100 milljónir krónur í þjóðarhöll á næsta ári, sem eru fjármunir sem munu nýtast í undirbúning verkefnis.
Vilji formanns Sjálfstæðisflokks annars vegar og Framsóknarflokks hins vegar er ólíkur að mati Þorgerðar og því spurði hún formann þriðja ríkisstjórnarflokksins hver hennar vilji væri, og minnti hana á í leiðinni að hún skrifaði undir viljayfirlýsingu „korteri fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor, í maí“ um að þjóðarhöllin ætti að rísa á þessu kjörtímabili.
Þegar umrædd viljayfirlýsing var undirrituð í maí voru átta dagar í sveitarstjórnarkosningar. Málið hafði verið hitamál í Reykjavík í aðdraganda þeirra, sérstaklega þar sem það var beintengt við inniþrótta-aðstöðu Þróttar og Ármanns í Laugardal og skólanna í hverfinu, sem hefur verið í miklu ólestri árum saman.
„Ég hef nú bara verið á einni mynd“
Þorgerður sagðist hafa séð margar myndatökur af undirskriftum varðandi þjóðarhöllina og vísaði í orð Hannesar S. Jónssonar, formanns Körfuknattleikssambands Íslands, sem sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að sýna verði „íþróttahreyfingunni þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er“. Hannes sagði jafnframt að hvorki hann né formaður HSÍ hafi verið kallaðir að borðinu varðandi framkvæmdanefnd þjóðarhallarinnar. „Hún hefur ekki hafið störf. Þetta er ámælisvert að mínu mati,“ sagði Þorgerður Katrín.
„Ég hef nú bara verið á einni mynd að undirrita viljayfirlýsingu,“ sagði Katrín, og átti við viljayfirlýsinguna sem var undirrituð í vor. Sagði hún að síðan þá hafi starfshópur um uppbyggingu þjóðarleikvang íþrótta verið skipaður þar sem sitja fulltrúar þriggja ráðuneyta og Reykjavíkurborgar. Hópurinn starfi auk þess undir forystu mennta- og barnamálaráðherra sem er einnig íþróttamálaráðherra. Hlutverk hópsins er meðal annars að samþætta störf framkvæmdanefndar sem hefur því hafið störf að hennar mati.
Hún viðurkenndi þó að henni væri ekki nákvæmlega kunnugt um fundaplön hópsins en að henni hafi verið sagt að hann sé að funda.
„Hafi fulltrúar íþróttahreyfingarinnar ekki verið kallaðir til þá hlýtur það að standa til, því hópurinn ku vera farinn af stað og farinn að funda reglulega vegna þess að á næstu mánuðum á að vinna alla þá nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf þannig að við getum lagt af stað í þetta mannvirki,“ sagði Katrín, sem bindur enn vonir við að þjóðarhöll rísi á þessu kjörtímabili.
Ekki segja: Við bindum vonir um
Þorgerður Katrín bað þá ríkisstjórnina um að sýna þann manndóm að tala skýrt í stað þess að segja: Við bindum vonir um.
„Sýnið forystu. Talið afdráttarlaust og segið við íþróttahreyfinguna: Já, við ætlum að klára þjóðarhöllina 2025, á þessu kjörtímabili. Í guðanna bænum setjið ekki alla ábyrgð yfir á næstu ríkisstjórn í öllum málum sem þið setjið hér fram,“ sagði Þorgerður Katrín.
Forsætisráðherra sagði þingmanninn þá ekki hafa verið með virka hlustun þar sem hefði komið skýrt fram í máli hennar að vinnan væri farin af stað. „Háttvirtur þingmaður þarf ekkert að efast um að verkefnið er á fullu skriði,“ sagði Katrín. Þá þurfi hún ekki heldur að hafa áhyggjur af skýrum vilja ríkisstjórnarinnar.