Alls eru 1.646 börn ekki skráð í grunnskóla innan sveitarfélags og af þeim eru 279 börn sem óvíst er hvort eða hvar eru í grunnskóla. Þetta kemur fram í svari Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um skólasókn barna sem svarað var í gær.
Þar segir að ráðuneyti hennar hafi sent spurningalista á sveitarfélög til að kanna fjölda barna á skólaskyldualdri sem ekki sóttu grunnsókna í sveitarfélaginu. Alls bárust svör frá 68 af 72 sveitarfélögum.
Flest þeirra barna sem óljóst er að stundi nám eru í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins, en þar eru þau 80 talsins. Alls eru 61 slíkt barn skráð í Hafnarfirði, 54 í Reykjanesbæ og 47 í Kópavogi.
Sveitarfélögin voru beðin um að tilgreinda ástæður þess að börn sem væru skráð í skóla. „Í þeim níu sveitarfélögum sem tilkynna um fjölda barna með lögheimili innan sveitarfélagsins þar sem óljóst er hvort þau stundi nám í grunnskóla telja sjö sveitarfélög ástæðuna vera þá að fjölskyldur hafi þegar flutt úr landi en ekki breytt skráningu lögheimilis og koma því fram sem íbúar sveitarfélagsins. Reykjavíkurborg bendir á að eftir athuganir væri óljóst hvar 179 börn, sem voru skráð til heimilis í Reykjavík, sóttu skóla. Eftir nánari eftirgrennslan og rannsókn er enn ekki vitað um hvort og þá hvar 80 börn eru skráð í skóla. Langflest barnanna hafa aldrei verið skráð í skóla í Reykjavík og er mjög stór hluti þeirra börn af erlendum uppruna. Tvö sveitarfélaganna, Kópavogur og Fjarðabyggð, tilgreina ekki ástæður þess að börn innan þeirra sveitarfélaga eru ekki skráð í skóla.“
Miðlægt skráningakerfi mikilvægt
Andrés spurði einnig um hver það væri sem beri ábyrgð á að öll börn á grunnskólaaldri stundi nám og að gripið sé til ráðstafana ef í ljós komi að svo sé ekki.
Í svari ráðherra segir að sveitarfélögum sé skylt að tryggja að skólaskyld börn njóti skólavistar og að mennta- og menningarmálaráðuneytið fari með yfirstjórn þeirra málefna sem lög um grunnskóla taka til. Þáq kveði lög um grunnskóla á um ábyrgð foreldra á námi barna sinna og að þeim beri að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. „Af þessu er ljóst að það er á ábyrgð sveitarfélaga, skólastjóra grunnskóla, foreldra og forráðamanna að öll börn á skólaskyldualdri sæki grunnskóla og að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef í ljós kemur að svo er ekki.“
Í svari ráðherra segir að sú könnun sem gerð var á skólasókn barna í tengslum við fyrirspurn Andrésar Inga varpi ljósi á „mikilvægi þess að komið verði á miðlægu skráningarkerfi svo að unnt sé að fylgjast með því hvort og hvar börn á skólaskyldualdri eru skráð í grunnskóla.“ Ráðuneytið hefur skipað starfshóp um skráningarkerfi grunnskólabarna og í honum eiga sæti fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrár Íslands, Hagstofu Íslands, Menntamálastofnunar og Reykjavíkurborgar, auk mennta- og menningarmálaráðuneytis. „Hlutverk hópsins er að skilgreina þarfir og óskir sem slíkt kerfi þarf að uppfylla og m.a. að skoða hversu umfangsmikið skráningarkerfið þarf að vera með tilliti til hvaða upplýsinga það þarf að ná utan um. Gert er ráð fyrir að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í september,“ segir í svari Lilju.