Árlegur sparnaður einstaklinga eykst með aldri og heldur áfram að aukast hér á landi þrátt fyrir að tekjur minnka þegar komið er á eftirlaunaaldur. Þetta eru niðurstöður Benedikts Jóhannessonar, stærðfræðings og fyrrverandi fjármálaráðherra í grein sinni sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Í greiningu Benedikts, sem byggir að miklu leyti á rannsóknum fyrir skýrslu sem Talnakönnun vann fyrir Birtu lífeyrissjóð, er lífeyrissparnaður Íslendinga skoðaður frá árinu 1993 til 2019. Samkvæmt henni hækkar árlegur sparnaður frá þrítugu til sextugs úr 200 þúsund krónum í 600 þúsund krónur.
Benedikt segir slíka hækkun rökrétta, þar sem ungt fólk skuldi hlutfallslega meira en þeir sem eru á miðjum aldri. Á elliárum segir hann svo að búast mætti við að fólk gangi á sparnaðinn sinn þangað til að hann verður að núlli.
Hins vegar leiðir greiningin hið gagnstæða í ljós. Sparnaður Íslendinga hélt áfram að aukast á eftirlaunaaldri, en árlegt meðaltal hans var komið upp í milljón krónur hjá þeim sem eru yfir áttrætt.
Að mati Benedikts er aukinn sparnaður samhliða minni tekjum þvert á það sem tilgangurinn er með sparnaðinum. Sparnaðurinn verður til vegna hækkandi eignastöðu og minni skulda, en með því eykst hrein eign einstaklinga.
Benedikt bætir einnig við að fastafjármunir séu lægra hlutfall af eignum hjá eldri borgurum heldur en hjá þeim sem eru yngri og því sé ekki rétt að sparnaður ellilífeyrisþega hafi einungis aukist vegna hærra fasteignaverðs.
Lesa má grein Benedikts í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.