Elín Oddný Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Félagsfundur VG í Reykjavík samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta í í fyrrakvöld að halda flokksval um efstu þrjú sætin.
Líf Magneudóttir borgarfulltrúi vill leiða listann áfram. Hún er eini borgarfulltrúi Vinstri grænna, en flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum árið 2018 og tapaði hátt í fjórum prósentustigum frá sveitarstjórnarkosningunum árið 2014 og hélt óbreyttum fjölda borgarfulltrúa þrátt fyrir að verið væri að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23.
Elín Oddný er með meistaragráðu í félags- og kynjafræði frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð og er auk þess framhaldsskólakennari að mennt. Hún hefur lengi verið virk í starfi Vinstri grænna, bæði í Reykjavík og á landsvísu. Hún hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Vinstri græn síðastliðin 17 ár. Meðal annars embætti ritara Vinstri grænna og formanns Ungra Vinstri grænna í Reykjavík og situr nú í stjórn hreyfingarinnar á landsvísu.
Undanfarið kjörtímabil hefur Elín Oddný verið varaborgarfulltrúi og hefur m.a. verið varaformaður velferðarráðs, fulltrúi í skóla-og frístundaráði og menningar- íþrótta og tómstundaráði.
„Borgarmálin hafa átt hug minn allan frá því að ég tók fyrst sæti sem varamaður í velferðarráði Reykjavíkurborgar fyrir fimmtán árum síðan,“ segir Elín Oddný í framboðstilkynningu sem hún sendi í morgun, miðvikudag.
„Mín hugsjón er hefur ávallt verið skýr: að vinna í þágu velferðar allra borgarbúa í víðasta skilningi þess hugtaks. Velferðarmál, kvenfrelsi, húsnæðismál, menntun og velferð barna ásamt mannréttindum jaðarsettra hópa hafa ávallt verið mér hugleikin. Eins hvernig við sköpum mannvæna, græna og lýðræðislega menningarborg fyrir komandi kynslóðir. Ég hef ávallt haft það að leiðarljósi í mínum störfum að það eru ekki alltaf þeir sem eru í mestri þörf hverju sinni sem hafa hæstu röddina.“