Ellefu ára djass píanóleikari, Joey Alexander, sendi frá sér sína fyrstu plötu 12. maí, sem ber nafnið My Favorite Things, en hann hefur vakið gríðarlega athygli að undanförnu, fyrir framúrskarandi hæfileika sína. Raunar hefur djass senan í New York tekið honum opnum örmum, og hafa gestir á tónleikum þar sem hann hefur komið fram verið hálfgapandi af undrun yfir þroskaðri spilamennsku hans.
Alexander er fæddur í Jakarta í Indónesíu og sýndi fljótt að hann hefði mikla hæfileika, og væri með ólíkindum fljótur að tileinka sér tækni og taktfestu í krefjandi spilamennsku djassins. Hann flutti til New York fyrir ári síðan með foreldrum sínum, eftir að flest útgáfufyrirtæki í Bandaríkjanna settu sig í samband við fjölskyldu hans.
Í umfjöllun um Alexander í New York Times á dögunum, þar sem plata hans er til umfjöllunar, er honum hrósað í hástert. Hann er sagður afburða tónlistarmaður, óháð „undrabarns“ stimplinum sem hefur verið fastur við hann frá því að hann byrjaði að spila á píanó.
Hér má sjá Alexander spila djass með félögum sínum, sem leika með honum á plötunni. Þeir eru í hópi virtustu hljóðfæraleikara í djass senunni í New York, en í viðtölum við þá, hrósa þeir stráknum unga fyrir afburðahæfileika og einbeitingu við upptökur.
https://www.youtube.com/watch?v=UCyfG9M5hz4