Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefur þung orð um það hvernig Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur höndlað viðskiptabann Rússa á íslensk matvæli. Hann skrifaði pistil á vefsíðu sína elliði.is í morgun og segir framkomu ráðherrans til skammar.
Í Vestmannaeyjum starfa tvær stærstu vinnslustöðvar fyrir uppsjávarfisk á landinu; Ísfélagið og Vinnslustöðin eiga mikla hagsmuni undir í viskiptabanni Rússa. Í samantekt RÚV á hvar bannið kemur verst niður virðast Vestmannaeyjar og sveitarfélög á Austurlandi verst leikin.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði byrjar á að taka dæmi af Gunnþóri Ingvarssyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar. Hjá honum starfa 270 manns sem Elliði segir nú eiga hættu á að missa starfs sitt. Gunnþór hefur þess vegna brugðist við og gagnrýnt stjórnvöld fyrir það hvernig þau héldu á málinu.
„Í stað þess að sýna því skilning að orð og gjörðir í utanríkismálum hafa afleiðingar fyrir íbúa þess lands og fyrirtæki og mæta þannig gagnrýni af stillingu brást Gunnar Bragi hinn versti við,“ skrifaði Elliði á vefsíðu sína. „Steininn tók úr þegar utanríkisráðherrann og þingmaðurinn gekk svo langt í viðtalsþættinum „Á Sprengisandi“ að viðhafa lítt duldar hótanir um að ef Gunnþór hefði ekki vit á að halda sig til hlés — halda kjafti — þá yrði fiskveiðistjónunarkerfið endurskoðað.“
„Ef Gunnþór tjáir skoðanir sem ekki eru stjórnmálamanninum þóknanlegar megi allt eins búast við því að eignir hans og tengdra aðila verði gerðar upptækar. Þessar alvarlegu hótanir kryddaði ráðherrann svo með brigslum um arðgreiðslur og oflátungshátt Síldarvinnslunnar,“ skrifar Elliði enn fremur. „Ég vil trúa því að ráðherran hafi hér hlaupið á sig og þetta tilvik sé ekki dæmigert fyrir hann. Eftir stendur að framkoman að þessu sinni var honum ekki samboðin heldur til skammar.“
Gunnar Bragi hefur sagt að hann ætli ekki að leggja til að þátttaka í viðskiptaþvingunum bandamanna gegn Rússlandi verði endurskoðuð. „Það byggir á prinsippi og miklu stærra hagsmunamati en þetta, í rauninni, þó hér séu auðvitað miklir hagsmunir,“ sagði Gunnar Bragi í samtali við Kjarnann. Á Sprengisandi á sunnudag sagði ráðherrann svo að hann velti fyrir sér hvort það séu bestu mennirnir til að fara með auðlindina ef þeir taki eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni.
Undir millifyrirsögninni „Ömurlegt“ skrifar bæjarstjórinn svo að það sé „ömurlegt fyrir okkur sem eigum allt undir sjávarútvegi að stjórnmálamenn skuli ítrekað leyfa sér að vega að atvinnugreininni.“ Og: „Rétt viðbrögð ráðherra hefðu verið að útskýra og réttlæta ákvörðun sína en ekki að viðhafa hótanir og brigslanir. Að nálgast málið málefnalega en ekki að reyna að þagga niður í gagnrýnisröddum. Slíkt er eingöngu merki um vondan málstað.“