Milljarðamæringurinn Elon Musk telur raunhæft að hægt verði að senda mönnuð geimför til reikistjörnunnar Mars eftir ellefu til tólf ár. Þetta kom fram í spjalli hans við stjörnufræðinginn og vísindamanninn Neil deGrasse Tyson í útvarpsþættinum StarTalk á dögunum. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá málinu.
Það sem er áhugavert við ummæli Musk er að bandaríska geimferðastofnunin, NASA, hefur ekki gefið út nákvæma dagsetningu um hvenær reynt verður að ráðast í mannaða geimferð til reikistjörnunnar. Stofnunin hefur þó gefið út að það verði einhvern tímann eftir árið 2030, en NASA hefur gengist undir niðurskurðarhníf bandarískra stjórnvalda trekk í trekk undanfarin ár.
Musk hefur sjálfur uppi fyrirætlanir um mannaðar geimferðir til Mars, en á enn eftir að útlista ráðagerð sína varðandi SpaceX, sem er fyrirtæki hans sem hyggur á landvinninga í sólkerfinu, hvað nýlenduferð til Mars varðar.
Auðkýfingurinn og frumkvöðullinn við eina af geimflaugum SpaceX. Mynd: EPA
SpaceX, sem er tólf ára gamalt fyrirtæki, færist nær því að fullkomna tækni þar sem hægt verður að nota eldflaug oftar en einu sinni, sem mun draga verulega úr kostnaði við geimferðir. Í dag kostar geimskot um 60 milljónir Bandaríkjadala. Endurnýtanlegar eldflaugar gætu lækkað þann kostnað niður í 200 til 300 þúsund dali.
NASA virðist hafa trú á háleitum markmiðum Musk og gerði samning við SpaceX um þróun og hönnun geimfars sem getur flutt vistir og með tíma geimfara til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. SpaceX hefur nú þegar tekist að senda vistir til geimstöðvarinnar, og stefnir á að senda geimfara með geimflauginni innan tíðar.
Þá eru uppi áform um frekari samvinnu NASA og SpaceX um að senda ómannað könnunarfar til Mars á næstu sjö árum, sem er ætlað að safna sýnum á rauðu plánetunni og flytja aftur til jarðar.
SpaceX ráðgerir hins vegar sinn eigin mannaða leiðangur til Mars, og hefur nú þegar opinberað fyrirætlanir sínar um nýja og stóra geimflaug sem er hönnuð til að bera mikinn farm, eins og nauðsynlegt verður þegar ráðist verður í jafn langar mannaðar geimferðir og til Mars. Reiknað er með að fyrirtækið geri frekar grein fyrir geimferjunni síðar á þessu ári.
Hægt er að hlusta á Elon Musk ræða fyrirætlanir sínar við Neil deGrasse Tyson, í áðurnefndum útvarpsþætti, hér að neðan.