Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hringdi í tónlistarmanninn Elton John eftir að sá síðarnefndi gagnrýndi forsetann og sagðist vilja hitta hann til að ræða „fáránlega“ hegðun rússneskra stjórnvalda gagnvart samkynhneigðu fólki. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Elton John var staddur í Úkraínu, þar sem hann hitti meðal annars forsetann Petró Porosjenko, að berjast fyrir réttindum hinsegin fólks. Réttindi LGBT-fólks eru fótum troðin í Rússlandi og Úkraínu. Þaðan hafa til dæmis birst myndbönd þar sem vegfarendur ráðast á og niðurlægja menn sem haldast í hendur úti á götu.
„Takk Vladimír Pútín fyrir að hafa samband og ræða við mig í síma í dag,“ skrifaði John í myndatexta á Instagram-reikning sinn við mynd af Pútín. „Ég hlakka til að hitta þig í eigin persónu og ræða við þig um jafnrétti LGBT-fólks í Rússlandi.“
Samkvæmt upplýsingum frá Kreml og baráttusamtökum Eltons John gegn alnæmi hafa þeir Pútín ekki komist að stað né stund fyrir fund þeirra. Söngvarinn, sem er nokkuð vinsæll í Rússlandi, hefur lengi barist fyrir því að lög um „óhefðbundið kynferðislegt samband“ verði afnumin í Rússlandi. Hann hefur meira að segja fordæmt lögin á tónleikum sínum í Moskvu og Pétursborg.