Engar sérstakar reglur gilda um viðskipti ráðherra eða fjölskyldumeðlima hans í tengslum við sölu ríkissjóðs á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Þetta segir í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til fjárlaganefndar Alþingis vegna fyrirspurna nefndarmanna til ráðuneytisins um sölu á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn fyrir 52,65 milljarða króna. Minnisblaðið var gert opinbert í dag.
Á meðal kaupenda var félagið Hafsilfur, í eigu Benedikts Sveinssonar. Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sem kom fram fyrir hönd ríkisins í tengslum við söluna á hlutnum í Íslandsbanka.
Fjárlaganefnd spurði hvaða reglur giltu um viðskipti ráðherra sjálfs eða náinna fjölskyldumeðlima þegar ráðherra kæmi fram fyrir hönd ríkisins í tengslum við sölu á eignarhlut þess í fjármálafyrirtækjum og hvort formlegar reglur hefðu verið settar um slík viðskipti?
Hannað til að koma í veg fyrir að ráðherra gæti hyglað einstökum bjóðendum
Skipting á ábyrgð og verkefnum milli ráðherra og Bankasýslu ríkisins komi skýrt fram í lögum um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Þessari skiptingu er ætlað að tryggja að hlutlægni og jafnræði séu ráðandi við sölu á eignarhlutum. Af hálfu ráðherra var tekin ákvörðun um magn hlutabréfa sem skyldi selt, verð sem skyldi tekið og viðmið um skiptingu milli lykilflokka bjóðenda, þ.e. að horft yrði til þess að skerða langtímafjárfesta minna en skammtímafjárfesta ef umfram eftirspurn yrði í útboðinu. Ekki var tekin afstaða til tiltekinna kaupenda.“
Athugun á bjóðendum hafi farið fram í fjarlægð frá ráðuneytinu og engin málefnaleg ástæða hafi verið fyrir ráðuneytið til að kanna hver væri á bak við hvert tilboð. „Umgjörð söluferlisins var hönnuð til þess að koma í veg fyrir að ráðherra gæti hyglað einstökum bjóðendum á kostnað annarra og að ómálefnaleg sjónarmið gætu ráðið för. Það markmið náðist.“