Sigrún Davíðsdóttir fréttamaður og pistlahöfundur segist munu sakna kolleganna og þess að vera undir þrýstingi – og standa skil á hlutum – eftir að hætta störfum en hún var í síðastu reglulegu innkomunni á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún hætti á Speglinum síðasta vetur en hún varð 67 ára á árinu.
„En einhvern tímann varð þetta að gerast og engin ástæða til að bíða eftir því að maður verði einhver geirfugl á skeri,“ sagði hún í samtali við Björn Þór Sigbjörnsson dagskrárgerðarmann á Morgunvaktinni í morgun.
Sigrún segist hafa byrjað á Morgunblaðinu í „upphafi tímans“ á níunda áratugnum. „Ég flutti síðan til Kaupmannahafnar því ég hafði fengið danskan styrk til að skrifa bók um handritamálið – bók sem kom á endanum út á dönsku en það er mjög gleðilegt að það er verið að þýða hana núna á íslensku.“
Sigrún varð síðar fréttaritari á Morgunblaðinu í Danmörku. „Fyrsta stórfréttin sem ég fjallaði um var 1992 þegar Danir felldu Maastricht-sáttmálanna, einn liðinn í þróun Evrópusamvinnunnar en Evrópusamvinnan hefur alltaf verið stór hluti af því sem fréttamenn fjalla um.“
„Tænke, tænke, tænke“
Á þessum tíma var Uffe Ellemann-Jensen utanríkisráðherra Danmerkur en hann var ákafur stuðningsmaður Evrópusamvinnunnar. Sigrún segir að það hafi verið pólitískt áfall fyrir hann að landsmenn hans skyldu fella Maastricht-samkomulagið.
Hún lýsir aðstæðum í Danmörku á þessum tíma og segir að þegar sáttmálinn var felldur á danska þinginu hafi fjölmiðlamenn beðið spenntir í þinghúsinu eftir viðbrögðum frá Ellemann. „Það fyrsta sem hann sagði þegar hann hafði stikað upp tröppurnar var að nú ætlaði hann að „tænke, tænke, tænke“ – það er að segja „hugsa, hugsa, hugsa“. Og ég skrifaði þessa frétt og þá þessa tilvitnun innan gæsalappa samviskusamlega í fréttina sem ég vissi að færi á forsíðuna. Þetta var auðvitað fyrir daga netsins og ég sá ekki blaðið fyrr en ég fékk það í pósti nokkrum dögum seinna. Og þá var fréttin orðin þannig að utanríkisráðherra ætlaði að leggjast undir feld. Ekkert með að „hugsa, hugsa, hugsa“ heldur „leggjast undir feld“. Og prófarkalesarinn, eða hver sem las þetta yfir, hafði sem sagt íslenskað textann og sett inn hvernig maður gæti sagt þetta á íslensku; að maður ætlaði að hugsa sig um.
Ég hef oft sagt erlendum kollegum þessa sögu og hef iðulega verið spurð að því hvort ég hefði ekki orðið reið að textanum hafi verið breytt en nei, nei, ég féll algjörlega í stafi yfir snilld þessa lesara sem ég veit reyndar aldrei hver var.“
Sigrún segir að hennar lexía af þessu hafi verið að þegar fréttamenn flytja fréttir frá öðrum löndum og af því sem fólk segir þá verði þeir að hugsa hvað Íslendingur myndi segja eða hvernig hann kæmist að orði. „Þannig að orðrétt þýðing er iðulega annaðhvort ankannaleg eða bara einfaldlega óskiljanleg.“
Stress getur líka verið jákvætt
Björn Þór spurði Sigrúnu hvernig væri að vera hætt að vinna, hvort hún væri fegin eða hvort þetta væri erfitt. Hún sagði að auðvitað væru það forréttindi að geta ákveðið sjálf að hætta en að það væri skrítið að hætta í vinnu sem hefði mótað líf henni til ómældrar ánægju um árabil án þess að það væri einhver eftirsjá eftir vinnunni.
„Þannig að já, það rífur alveg í hjartaræturnar. Það tekur smá tíma að venja sig af að vera með fréttir og fréttaefni svona í algjörri gjörgæslu og einhvern veginn haga öllu lífinu til að skilja betur það sem er að gerast. Ég hef alltaf sagt að frí eru frábært út af því að þau hafa upphaf og endi, svo það er svolítið skrítið að vera komin í endalaust frí en það er sannarlega ekkert til að kvarta yfir en það rífur smá í hjartaræturnar.“
Björn spurði hvort hún ætti eftir að sakna einhvers í starfinu. Sigrún svaraði og sagði að henni fyndist það svolítið skondið að hún saknaði þess að vera upptekin. „Ég sakna þess að þurfa að standa skil á hlutum og vera undir þrýstingi. Það er alltaf talað um þetta að vinna undir þrýstingi sé einhvern veginn aukið stress en stress getur líka verið jákvætt. Það getur auðvitað verið drepandi og eyðileggjandi en það getur líka verið örvandi. Þannig að ég sakna þess svolítið og ég sakna auðvitað sambandsins við góða kollega. En einhvern tímann varð þetta að gerast og engin ástæða til að bíða eftir því að maður verði einhver geirfugl á skeri,“ sagði hún að lokum í síðasta innslaginu á Morgunvaktinni í morgun.