Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki hafa gefið Björk Guðmundsdóttur tónlistarkonu nein fyrirheit um að gefa frá sér formlega yfirlýsingu um neyðarástand í loftslagsmálum í samskiptum þeirra á milli sem fram áttu sér stað í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2019.
Katrín sagðist hins vegar ætla að ræða málið við samráðherra sína. Frá þessu segir í svari forsætisráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannsyni þingmanni Samfylkingar, sem birtist á vef Alþingis í dag.
Björk gaf í skyn, í viðtali við breska blaðið Guardian í ágústmánuði, að hún og Greta Thunberg hefðu vænst þess að Katrín lýsti yfir neyðarástandi í loftslagsmálum í ræðu sinni á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. „Ég eiginlega treysti henni, kannski vegna þess að hún er kona, en svo fór hún og flutti ræðu og sagði ekkert. Hún minntist ekki einu sinni á þetta. Ég varð fokreið, þar sem ég hafði verið að skipuleggja þetta í marga mánuði,“ sagði Björk við Guardian.
SMS frá Björk til forsætisráðherra
Fram kemur í svarinu frá forsætisráðherra að erindið frá Björk til forsætisráðherra hafi borist með SMS-skilaboðum í síma Katrínar, þann 6. september 2019. „Ráðherra svaraði samdægurs með smáskilaboðum og síðan ræddust þær við í síma í framhaldi af því. Eftir símtalið sendi Björk forsætisráðherra nokkur smáskilaboð dagana 19., 22. og 23. september. Ráðherra sendi ein skilaboð 19. september. Í öllum tilfellum voru þessi samskipti við Björk Guðmundsdóttur og var forsætisráðherra aldrei í samskiptum við Gretu Thunberg,“ segir í svarinu.
Í svari ráðherra er vikið að því að Björk hafi talið mikilvægt að forsætisráðherra lýsti í ræðu sinni á fundinum yfir neyðarástandi í loftslagsmálum af hálfu Íslands og Norðurlanda. „Af hálfu ráðherra kom fram að hún myndi ræða málið við samráðherra sína en engin fyrirheit voru gefin um formlega yfirlýsingu,“ segir í svari forsætisráðherra við fyrirspurninni.
Þar er nánar rakið að í „samskiptum forsætisráðherra við Björk Guðmundsdóttur voru engin fyrirheit gefin um formlega yfirlýsingu af hálfu ráðherra, ríkisstjórnar eða Alþingis um neyðarástand í loftslagsmálum“ og jafnframt segir að í ræðunni á fyrrnefndu þingi Sameinuðu þjóðanna hafi forsætisráðherra sagt að enginn velktist í vafa um það lengur að heimurinn stæði frammi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum.
„Eftir umræðu á vettvangi ríkisstjórnar um loftslagsmál var það niðurstaðan, eftir pólitískt samráð, að betur færi á því að láta verkin tala og leggja áherslu á að ná árangri með raunhæfum og nauðsynlegum aðgerðum í loftslagsmálum en að nálgast viðfangsefnið með yfirlýsingu af þessu tagi sem væri táknræn í eðli sínu og hefði ekki sjálfkrafa áhrif á aðgerðir gegn loftslagsvánni. Þá var málið rætt í óformlegum samtölum norrænna forsætisráðherra en loftslagsmál höfðu verið aðalefni fundar þeirra hér á landi í ágúst sama ár og hafði verið töluverð umræða allt árið 2019 um gagnsemi slíkra yfirlýsinga alls staðar á Norðurlöndum,“ segir í svarinu frá ráðherra.
Jóhann Páll spurði einnig að því hvort Katrín hefði hvatt Björk og Gretu til að hætta við að halda blaðamannafund þar sem krafist yrði yfirlýsingar um neyðarástand í loftslagsmálum, eins og Björk lét að liggja í viðtali í þættinum Víðsjá á RÚV undir lok september.
Í svarinu frá forsætisráðherra segir að í samskiptum Katrínar við Björk hafi komið fram að til stæði skora opinberlega á forsætisráðherra Norðurlanda að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.
„Forsætisráðherra hvatti ekki til þess að hætt yrði við slíkt en upplýsti um að þessi mál hefðu verið og væru til umræðu við ríkisstjórnarborðið,“ segir í svarinu frá forsætisráðherra.