Svar hefur borist frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins en hann spurði á lokadögum þingsins í júní: „Hvernig skilgreinir ráðuneytið orðið kona?“
Í svari ráðherrans kemur fram að óski Sigmundur Davíð eftir upplýsingum um orðsifjar nafnorðsins kona og málfræðilega merkingu þess beri að beina fyrirspurn þess efnis að menningar- og viðskiptaráðherra sem fer með málefni íslenskunnar.
Þá segir jafnframt í svarinu að samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fari forsætisráðuneytið með jafnréttismál, þar á meðal lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög um kynrænt sjálfræði.
Markmið laganna að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns
Þá er bent á í svarinu að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna hafi tekið gildi 6. janúar árið 2021. „Orðið kona er ekki skilgreint í lögunum og engin lagaleg skilgreining er til á því orði. Markmið laganna er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.“
Enn fremur segir í svari forsætisráðherra að í athugasemdum við fyrrnefnd lög komi fram að með kyni í lögunum sé átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns en í lögum um kynrænt sjálfræði sé kveðið á um óskoraðan rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt sem kona, karl eða kynhlutlaus. Miði lög um kynrænt sjálfræði að því að tryggja að kynvitund einstaklinga njóti viðurkenningar. Í þeim tilvikum sem réttaráhrif fylgja kyni einstaklinga gildi hin opinbera skráning kyns í þjóðskrá.