Fjöldi þeirra sem er með sjónvarp yfir IP-net, sem er það sjónvarp sem miðlað er í gegnum ADSL- eða ljósleiðaratengingar í myndlykla sem leigðir eru af fjarskiptafyrirtækjum, hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum samhliða því að streymisveitur á borð við Netflix, Amazon Prime, Viaplay og Disney+ hófu innreið sína inn á íslenskan sjónvarpsmarkað. Hægt er að horfa á slíkar í gegnum öpp á sjónvarpi og öðrum tækjum án þess að myndlykil þurfi til.
Tvö fyrirtæki bjóða upp á myndlykla til að horfa á sjónvarp yfir IP-net, Síminn og Vodafone, sem er hluti af Sýnarsamstæðunni. Um mitt ár 2017 voru 103.205 áskrifendur að sjónvarpi yfir IP-net. Í lok árs 2020 var sá fjöldi kominn niður í 84.798. Þeim sem velja þá leið til að miðla sjónvarpi hefur því um tæp 18 prósent á fjóru og hálfu ári.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna í lok árs 2021.
Báðir risarnir tapa áskrifendum
Síminn, sem rekur sjónvarpsþjónustuna Sjónvarp Símans, hefur þó styrkt stöðu sína á þeim tíma þótt hann hafi tapað nokkur þúsund viðskiptavinum og er nú með 63 prósent markaðshlutdeild í sjónvarpi yfir IP-net. Það er um tíu prósentustigum meiri hlutdeild en fyrirtækið var með um mitt ár 2017. Áskrifendum Símans er þó að fækka og voru tæplega 4.500 færri í lok árs 2021 en tveimur árum áður. Þeir voru 53.421 um síðustu áramót.
Það tap sem orðið hefur á myndlyklaáskrifendum hefur að mestu orðið hjá Vodafone, sem selur sjónvarpsáskrift að Stöð 2 og hliðarstöðvum hennar. Um mitt ár 2017 var fjöldi áskrifenda að myndlyklum Vodafone 41.423 en í lok síðast árs var sá fjöldi kominn niður í 31.377. Áskrifendum hefur því fækkað um rúmlega tíu þúsund á tímabilinu, eða um tæplega fjórðung.
Við bætist að Sýn keypti 365 miðla á árinu 2017, en síðarnefnd fyrirtækið var með 5.914 áskrifendur að sjónvarpi yfir IP-net um mitt það ár. Þegar sá fjöldi er tekin með í reikninginn hefur áskrifendum Vodafone fækkað um þriðjung. Markaðshlutdeild Vodafone er nú 37 prósent.
Vert er að taka fram að hægt er að vera áskrifandi að sjónvarpsþjónustu án þess að leigja myndlykil með því að nálgast hana í gegnum app. Engar tölur eru í skýrslu Fjarskiptastofu um heildarfjölda áskrifenda hjá Símanum eða Sýn.
Sjónvarpstekjur hafa rokið upp á fáum árum
Í skýrslu Fjarskiptastofu er einnig fjallað um heildartekjur af fjarskiptastarfsemi. Í þeirri samantekt kemur í ljós að þær hafa aukist umtalsvert á síðustu árum.
Árið 2017 voru heildartekjur sem féllu til vegna fjarskiptastarfsemi hérlendis 57,4 milljarðar króna. Í fyrra voru þær 72,4 milljarðar króna. Þær hafa því aukist um 26 prósent á fjórum árum.
Langmestu munar um nýja tekjur vegna sjónvarpsþjónustu. Þær voru 3,8 milljarðar króna á árinu 2017 en 14,9 milljarðar króna í fyrra. Því eru 11,1 milljarður króna af þeim viðbótar 15 milljarða króna tekjum sem fjarskiptafyrirtækin tóku til sín í fyrra í samanburði við árið 2017 vegna sjónvarpsþjónustu, eða 74 prósent.
Vert er að taka fram að í millitíðinni keypti Sýn fjölda ljósvakamiðla af 365 miðlum og Síminn hefur bætt verulega í þá þjónustu sem hann selur undir hatti Sjónvarps Símans.