Leiðtogar þjóða heims munu hittast í New York síðar í mánuðinum til að reyna að komast að samkomulagi til að draga úr ofnýtingu úthafanna. Áratugur er liðinn síðan Sameinuðu þjóðirnar reyndu fyrst fá sérstakan samning um verndun úthafanna samþykktan en að hefur hingað til reynst árangurslaust.
Ef það mun takast á fundinum sem hefst í New York 26. ágúst næðist samstaða um að gera um 30 prósent af höfum heimsins að verndarsvæðum fyrir árið 2030. Með samningnum yrði dregið úr ofveiði og öðrum skaðlegum athöfnum mannanna í sjónum.
Tveir þriðju hlutar heimshafanna eru í dag álitnir alþjóðleg hafsvæði sem þýðir að öll ríki hafa rétt til veiða í þeim, að sigla um þau og vinna þar að rannsóknum. En aðeins 1,2 prósent úthafanna njóta verndar, segir í frétt BBC um málið.
Þetta hefur orðið til þess að auka hættu á ofnýtingu af ýmsu tagi, m.a. ofveiði og gríðarlega mikilli umferð skipa.
Þótt mannkynið sé löngu farið að skoða geiminn er enn mikil vinna eftir við að kortleggja vistkerfi hafsins sem sum hver eru mjög viðkvæm en sérstaklega mikilvæg öllu lífríki. Alþjóðleg rannsókn sem birt var fyrr á þessu ári þykir benda til að milli 10 og 15 prósent tegunda sem lifa í hafinu séu í útrýmingarhættu.
Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin, IUCN, segja að sú brotakennda stjórnun sem er á nýtingu alþjóðlegra hafsvæða hafi leitt til ofnýtingar og komið í veg fyrir að verndarmarkmið hafi náðst.
Ef leiðtogarnir komast að samkomulagi gætu mörg hafsvæði orðið hluti af neti verndarsvæða. Í kjölfarið þyrfti svo mat á umhverfisáhrifum áður en starfsemi af hvers kyns toga yrði þar leyfð.
Veiðar er ekki eina starfsemin sem ógnar lífríki hafsins, langt í frá. Mikil ásókn er nú orðin í námuvinnslu af hafsbotni enda ýmsar auðlindir á landi að ganga til þurrðar. Meðal jarðefna sem gríðarleg eftirspurn er nú eftir er kóbalt. Slíkt er m.a. unnið úr jörðu í Austur-Kongó en nú vilja námufyrirtækin vinna þau úr hafsbotni. Kóbalt er m.a. notað í margvísleg raftæki, vindmyllur og rafbílarafhlöður svo fáein dæmi séu nefnd. Vinnsla kóbalts er mengandi iðnaður og óttast er að hún geti haft mjög skaðleg áhrif á lífríki hafsins. Sérstök stofnun, International Seabed Authority, hefur umsjón með útgáfu leyfa til námuvinnslu á alþjóðlegum hafsvæðum. Frá því í mars í ár hefur hún gefið út 31 leyfi til rannsóknar á hafsbotni vegna áformaðrar námuvinnslu.
Vilja undanþágu
Í frétt BBC um málið segir að nokkrar þjóðir, þar á meðal Rússar og Íslendingar, hafi farið fram á að fiskveiðar verði undanþegnar skilmálum samkomulagsins um verndun úthafanna. Fram kemur að íslensk stjórnvöld hafi bent á mikilvægi fiskveiða fyrir efnahag landsins. Kínverjar og Rússar hafa tínt til sömu rök.
Í mars var ákveðið að þjóðarleiðtogar myndu gera fimmtu og síðustu tilraunina til að ná samkomulagi um verndun úthafanna. Sá fundur verður í New York líkt og fyrr segir en frestur hefur verið gefinn út þetta ár til að komast að niðurstöðu.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að ef ekki takist að ná samkomulagi ætli hún sér að þrýsta á áframhaldandi tilraunir. „Grípa þarf til aðgerða til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu hafsins fyrir núverandi og komandi kynslóðir.“