Ástralska strandgæslan leitar enn að þotu Malaysian Airlines sem hvarf af ratsjám 8. mars síðastliðinn, fyrir sjö mánuðum síðan. Sjávarbotninn á suðaustur Indlandshafi hefur verið kortlagður ítarlega síðustu mánuði en leitarsvæðið þar sem vélin er talin hafa fallið í hafið er gríðarstórt; um það bil 110.000 ferkílómetrar. Til samanburðar er Ísland 103.000 ferkílómetra stórt að flatarmáli. Leitin varð snemma víðtækasta og lang dýrasta leitaraðgerð í sögunni.
Leit hófst að nýju í síðustu viku þegar leitarhópurinn hóf að nota sjálfvirkan kafbát sem á að varpa enn betra ljósi á hafsbotninn þar sem flak vélarinnar er talið liggja. Síðan hefðbundinni leit á svæðinu var hætt hefur hugsanleg flugleið vélarinnar verið kortlögð upp á nýtt og leitarsvæðið þrengt niður í 60.000 ferkílómetra.
Kafbáturinn er framleiddur af hollenska fyrirtækinu Furgo sem sérhæfir sig í rannsóknum á botni sjávar. Tækið sendir þráðlaus boð til yfirborðsins eftir að hafa komið sér fyrir rétt fyrir ofan hafsbotninn. Þar kastar hann frá sér hljóðbylgjum og tekur ljósmyndir. Gögnin sem kafbáturinn safnar eru jafnframt gríðarlega nákvæm og ljósmyndirnar í hárri upplausn.
Þrátt fyrir þetta góða tæki segjast ástralski leitarhópurinn vera hóflega bjartsýnir á að finna flak vélarinnar og lík 227 farþega hennar. Enn hafa engar nýjar vísbendingar borist um hvað hefur orðið að vélinni síðan síðustu ratsjármerki bárust frá henni nokkrum klukkutímum eftir að hún hætti að hafa samband við flugumferðayfirvöld. Hvarfið hefur því verið kallað mesta ráðgáta allra tíma í farþegaflugi.
Ekki nóg með það heldur var hvarf vélarinnar, ef gert er ráð fyrir að allir farþegar og áhöfn flugvélarinnar hafi farist, stærsta og mannskæðasta flugslys í sögu Malaysian Airlines og Boeing-þotuframleiðandans í 131 dag, eða þar til önnur farþegaþota sama flugfélags var skotin niður yfir Úkraínu í júlí. Þar fórust allir um borð, samtals 298 manns.
Kjarninn fjallaði um hvarf þotunnar í mars síðastliðnum og rakti helstu kenningarnar sem hafðar voru um hvað hafi orðið af vélinni. Hún átti að hafa verið notuð til hryðjuverka, hún skotin niður og vera einhverstaðar niðurkomin í Pakistan á svipuðu svæði og Osama Bin Laden hélt sig áður en hann var drepinn. Líklegast er þó að hún hafi hrapað í hafið eftir að eitthvað fór úrskeiðis um borð.
Enn er allt á huldu um hvað varð um þotuna sem bar 211 farþega og áhöfn frá Kuala Lumpúr í byrjun mars.