„Það liggur algjörlega ljóst fyrir að við ætlum í þessi verkefni.“ Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag þegar hann var spurður út í það hvort stjórnvöld hygðust taka þátt í að fjármagna nýjan þjóðarleikvang á næstunni.
Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar var harðorð í garð ríkisstjórnarinnar í fyrirspurn sinni. Hún spurði ráðherrann hvort ekkert væri að marka yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, hvorki í stjórnarsáttmála, fyrir kosningar, eftir kosningar eða í viðtölum ráðherra á síðustu mánuðum. „Er ekkert að marka það sem sagt er fyrir utan þennan sal og inni í þessum sal?“ spurði hún meðal annars.
Helga Vala benti á í upphafi fyrirspurnar sinnar að fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar lægi nú fyrir en í henni er greint frá í hvaða verkefni ríkisstjórnin hyggst ráðast á kjörtímabilinu.
„Þar sjá forstöðumenn ríkisstofnana líka hvernig landið liggur, enda er það svo að í fjárlögum er stuðst við þessa fjármálaáætlun sem sýnir stóru myndina. Það skiptir því máli fyrir allan fyrirsjáanleika í rekstri stofnana sem reknar eru á opinberu fjármagni að fjármálaáætlun sé í tengslum við raunverulegan vilja og áætlun ríkisstjórnar hverju sinni,“ sagði hún.
Verkefnið ekki á fjármálaáætlun
Helga Vala benti á að Laugardalshöll væri úr sér gengin og hefði um árabil verið á undanþágu fyrir keppnir en aðstaðan telst ólögleg fyrir alþjóðlegar keppnir hvort tveggja í handbolta og körfubolta.
„Íslensku landsliðin hafa þannig þurft að leika heimaleiki sína erlendis en líka í snotrum en þó litlum sölum á Ásvöllum og í Smáranum. Laugardalsvöllurinn er einnig á undanþágu og styttist í að landslið Íslands í fótbolta þurfi að fara að spila heimaleiki sína erlendis, hvar sem það nú verður. Þrátt fyrir áralanga umræðu um mikilvægi þess að ráðist verði í uppbyggingu nýrrar þjóðarhallar og þjóðarleikvangs, loforð í aðdraganda kosninga, fullyrðingar í stjórnarsáttmála og hvaðeina, eru enn skipaðir starfshópar á starfshópa ofan sem eiga að skila nýjum og nýjum skýrslum.“
Sagði hún að ekki ein króna væri sett í þetta verkefni í fjármálaáætlun þessa kjörtímabils hjá ríkisstjórninni. „Engir fjármunir og svo óljóst orðalag um fjárfestingar til framtíðar að það virðist morgunljóst að ekkert verði af slíkri uppbyggingu.“
Helga Vala spurði því ráðherrann hvort ekkert væri að marka yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, hvorki í stjórnarsáttmála, fyrir kosningar, eftir kosningar eða í viðtölum ráðherra á síðustu mánuðum. „Er ekkert að marka það sem sagt er fyrir utan þennan sal og inni í þessum sal?“ spurði hún.
Þarf að vinna ákveðna grunnvinnu áður
Ásmundur Einar sagði að það væri algerlega skýrt af hálfu þessarar ríkisstjórnar að þau væru að setja það sem lyti að þessari þjóðarhöll og þjóðarleikvöngum í forgang.
„Það liggur hins vegar alveg fyrir – og þarf að vinna ákveðna grunnvinnu hvað það snertir, það er stýrihópur starfandi vegna þess það þarf að fara fram samtal við borgina og íþróttahreyfinguna – að það þarf að forma hvar við byrjum, hvað við leggjum áherslu á.“
Hann sagðist taka undir áhyggjur Helgu Völu sérstaklega gagnvart innanhússíþróttunum. Sú vinna væri í fullum gangi.
„Ég reikna með því að öðrum hvorum megin við þessa helgi munum við kynna hvernig við sjáum fyrir okkur skrefin stigin á þessu kjörtímabili hvað það snertir. Í framhaldinu gæti farið fram áframhaldandi samtal við borgina, vegna þess að það hefur bara verið samtal við borgina undanfarnar vikur, og þá munum við geta áttað okkur á því hvaða fjármagn nákvæmlega þarf til hvers og eins þessara verkefna. Þangað til erum við með óráðstafað framkvæmdafé, sem komið hefur fram, bæði í viðtölum við þann sem hér stendur og við hæstvirtan fjármála- og efnahagsráðherra, sem er notað til þeirra verkefna sem á þarf að halda til að koma þessu sem hraðast áfram.“
Vill ekki meina að ríkisstjórnin sé að svíkja þjóðina
Ásmundur Einar sagði að það væri því ekkert til í fullyrðingum Helgu Völu um að verið væri að svíkja þjóðina um þjóðarleikvanga eða þjóðarhallir og að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að standa við það.
„Því hefur verið svarað og algerlega skýrt að það er ætlunin. Þegar við sjáum nákvæmlega hvaða fjármagn þarf til verksins þá er hægt að forma það betur. Þangað til hefur ekki strandað á því á milli mín og fjármálaráðherra að við höfum getað unnið þau verk sem þarf að vinna í þessu en það tekur tíma, hönnun, skipulag, samtal og forgangsröðun um með hvaða hætti við gerum það. Það eru þau verkefni sem framkvæmdarvaldið er með á sinni könnu, það eru þau verkefni sem ég er með sem ráðherra og það eru þau verkefni sem ég ætla að ljúka á þessu kjörtímabili,“ sagði hann í lok fyrra svars síns.
„Hvar ætlið þið að taka peningana?“
Helga Vala kom aftur í pontu og þakkaði ráðherra fyrir svarið, að hann ætlaði að setja uppbyggingu þjóðarleikvangs og þjóðarhallar í forgang þrátt fyrir að það væri ekki eina króna í það í fjármálaáætlun – sem hlyti þó að vera stefnuplagg sem miðað væri við.
Las hún í framhaldinu texta upp úr fjármálaáætlun þar sem segir að þetta svigrúm yxi smám saman yfir tíma og yrði orðið allnokkuð undir lok tímabilsins og gæti það ef til vill rúmað einhver stærri fjárfestingarverkefni á síðari hluta tímabilsins.
„Í sömu fjármálaáætlun er verið að tala um að þetta „ef til vill“-fjárfestingarverkefni sé þjóðarleikvangurinn, sé þjóðaríþróttahöll, sé listaháskóli, sé tækniskóli. Við fengum skýrslu 2015 um hvað þetta verkefni kostar í Laugardalnum, við fengum aðra skýrslu 2018, starfshópur skilaði af sér skýrslu í janúar 2019. Hvað þurfum við margar skýrslur, herra forseti, ef það eru engir peningar sem þið ætlið að setja í verkefnið? Hvar ætlið þið að taka peningana? Ætlið þið að taka peningana úr heilbrigðiskerfinu? Ætlið þið að taka peningana úr velferðarkerfinu? Ef þið setjið ekki peningana á blaðið, hvernig eigum við þá að trúa því að það sé eitthvað að marka þessa fjármálaáætlun? Í alvöru talað, það er í fjármálaáætlun þar sem segir hvað þið ætlið að gera, ekki hér með einhverjum fagurgala,“ sagði hún.
Málið í pólitískum forgangi
Ráðherrann sagði í framhaldinu að það lægi algjörlega ljóst fyrir að þau þyrftu að átta sig á því hvaða upphæðir þyrftu til verksins. Helga Vala greip fram í úr þingsalnum og kvartaði Ásmundur Einar til forseta. „Það er erfitt að svara þegar þingmaðurinn grípur eilíft fram í í hvert einasta sinn sem við eigum orðastað.“
Hann hélt áfram: „Það liggur algjörlega ljóst fyrir að við ætlum í þessi verkefni. Ég verð að segja að mér finnst þetta minna dálítið á umræðu frá síðasta kjörtímabili þegar verið var að ræða um lengingu og hækkun greiðslna í fæðingarorlofi. Í fyrstu fjármálaáætlun sem lögð var fram lá fyrir að við ætluðum okkur að vinna þá vinnu. Það lá fyrir að við vorum að vinna í því. Stjórnarandstaðan, sem er sú sama og nú er, gagnrýndi það að ekki væri fjármagn í fjármálaáætlun, að þetta væru allt saman svik. Hver reyndist verða niðurstaðan? Fæðingarorlofskerfið var tvöfaldað, greiðslur voru hækkaðar, það var lengt í fæðingarorlofi. Það sama verður upp á teningnum hér.
Við erum að vinna að þessum málum. Þetta er í pólitískum forgangi. Þegar það liggur fyrir hvaða fjármagn þarf til verksins verður það eyrnamerkt sérstaklega. En fram að því er framkvæmdafé óráðstafað á sameiginlegum lið sem haldið er utan um. Það verður nýtt í það,“ sagði Ásmundur Einar.
„Ég skal gleðja háttvirtan þingmann með því að segja að ég held að hún verði fyrir vonbrigðum í þessum pólitíska leik sem hún er í þegar upp verður staðið,“ sagði hann að lokum.