Forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, segir að eðlilegt sé að „við leggjum okkur öll fram um að bæta móttöku fólks og gerum betur í þeim efnum“. Áskoranir séu margar en að mikill vilji sé fyrir hendi til að leysa úr þeim. „Þannig að ég vil segja já, við höfum verið að taka á móti fleirum. Er hægt að gera betur? Alveg örugglega.“
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spyrði hana meðal annars hvort hún væri sammála andstöðu Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra við áform dómsmálaráðherra um stórfelldan brottflutning fólks héðan. „Og ef svo er, fylgja einhver verk?“ spurði hann. Katrín svaraði því ekki í fyrirspurninni.
Logi benti í upphafi á að nú biðu margir flóttamenn „milli vonar og ótta“ og fylgdust með skeytasendingum á milli einstakra ráðherra. Hann rifjaði upp að Guðmundur Ingi hefði lýst sig ósammála stefnumótun og aðferðum Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og sagði Logi það vissulega vera gott en hann langaði að vita hvað það táknaði í raun.
Hann sagði að Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, gæti ekki skorast undan ábyrgð á störfum dómsmálaráðherra og að félagsmálaráðherra bæri sem slíkur líka ábyrgð á aðbúnaði og aðstæðum flóttamanna hér á landi. Þar mætti „nú heldur betur ýmislegt betur fara“.
„Maður blygðist sín örlítið yfir því að vera Íslendingur“
Vísaði Logi í umfjöllun Fréttablaðsins um síðastliðna helgi þar sem úkraínska konu sagði að aðstæður fjölskyldu hennar væru ömurlegar. Henni hefði verið gert að flytja með skömmum fyrirvara upp á Ásbrú en foreldrar hennar hefðu verið sendir að Bifröst.
„Það fer ekki hjá því að maður blygðist sín örlítið yfir því að vera Íslendingur við að lesa um móttökurnar sem þessi úkraínska fjölskylda úr stríðshrjáðu landi fær. Konan lýsir óboðlegri framkomu Útlendingastofnunar og segir frá því hvernig fjölskyldan fékk ekki rúmföt, engin eldhúsáhöld, ekki potta eða pönnur en eitt glas til að deila, auk þess sem langt er í alla þjónustu. Þess er auðvitað varla að vænta að flóttafólk úr öðrum heimshornum mæti sérstaklega betra atlæti en hér er lýst,“ sagði Logi.
Hann sagðist jafnframt gera sér grein fyrir því að ráðherrar gætu ekki sjálfir staðið í að útvega fólki lágmarkseldhúsáhöld. en spurði í framhaldinu hvort Katrín væri sammála honum um að betur mætti gera en lýst hefði verið í viðtalinu í Fréttablaðinu. „Er hún ekki sammála því að stjórnvöld setja tóninn í samskiptum við fólk sem hingað leitar?“ Hann spurði einnig hvort hún væri sammála andstöðu Guðmundar Inga við áform dómsmálaráðherra um stórfelldan brottflutning fólks héðan. „Og ef svo er, fylgja einhver verk?“ spurði hann.
Gera mætti betur í sértækum málum
Katrín svaraði og þakkaði Loga fyrir fyrirspurnina sem hefði bæði fjallað um hið sértæka og hið almenna. Hún sagði að hægt væri að lesa stefnu úr tölunum því að það lægi „algerlega fyrir að þeim hefur fjölgað umtalsvert sem hafa fengið vernd hér á landi frá því að núverandi ríkisstjórn tók við í lok árs 2017“.
„Ef við tökum bara fjöldann síðan þá, þá hafa tæplega 3.400 einstaklingar fengið vernd hér á Íslandi. Þetta má líka lesa út úr alþjóðlegum samanburði. Þegar við berum saman hvað við tökum á móti mörgum hér á Íslandi miðað við til að mynda önnur Norðurlönd þá held ég að við getum sannast sagna sagt að við Íslendingar stöndum okkur í því að taka á móti fleirum en við höfum áður gert,“ sagði hún.
Ráðherrann sagði jafnframt að vafalaust mætti ýmislegt gera betur í sértækum málum. „Ég las líka þetta viðtal sem síðan hefur verið rætt um af hálfu Útlendingastofnunar. Ég vil um það segja að mér þykir mjög leitt að heyra af upplifun þessarar fjölskyldu sem rætt var við í Fréttablaðinu um helgina. Mér finnst liggja algerlega ljóst fyrir að við eigum að taka það alvarlega þegar slíkar ábendingar berast. Það hefur verið ákveðið að bæði framkvæmdahópur og stýrihópur um móttöku flóttafólks frá Úkraínu muni heimsækja þessi búsetuúrræði til að ganga úr skugga um að viðeigandi lagfæringar hafi verið gerðar sem bent var á að þyrfti að gera í úttekt Rauða krossins frá 18. maí síðastliðnum.
Það er auðvitað eðlilegt að við leggjum okkur öll fram um að bæta móttöku fólks og gerum betur í þeim efnum. Það eru margar áskoranir en mikill vilji til að leysa úr því. Þannig að ég vil segja já, við höfum verið að taka á móti fleirum. Er hægt að gera betur? Alveg örugglega og við eigum að taka það alvarlega þegar við lesum svona frásagnir og brugðist hefur verið við með þessum hætti,“ sagði Katrín.
Hvar er heildarskoðunin?
Logi steig aftur í pontu og sagði að það væri mjög sérstakt ástand uppi í heiminum.
„Það er stríð víða, í Sýrlandi til dæmis. Engu að síður sjáum við að fólk frá einstökum löndum á af einhverjum ástæðum greiða leið hingað inn, frá Venesúela til dæmis miðað við Sýrland,“ sagði hann og spurði hversu mörgum kvótaflóttamönnum íslensk stjórnvöld hefðu boðið hingað til lands. „Ég held að á síðasta ári hafi þeir ekki verið nema 34.“
Benti hann á að forsætisráðherra hefði talað á síðustu dögum um að það vantaði heildarstefnumótun í málefnum flóttamanna. „Hún hefur verið forsætisráðherra þessarar ríkisstjórnar fimm síðustu ár. Og hvar er sú heildarstefnumótun? Ég þekki þó að haustið 2017 tók hún, ásamt formönnum allra flokka á þingi nema Sjálfstæðisflokks, þátt í að skrifa undir plagg um að endurskoðun og heildarstefnumótun þessara hluta yrði sett á dagskrá. En hvað gerist?“ spurði hann og bætti því við að Katrín hefði í tvígang myndað ríkisstjórn þar sem dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins færi með öll völd.
Vill ekki einungis taka á móti fleirum heldur að það sé gert vel
„Þá komum við að því hvað varðar heildarstefnuna,“ sagði Katrín í seinna svari sínu. „Nú er það svo á Íslandi, og ég bendi á, að hér hefur mikill fjöldi fólks fengið alþjóðlega vernd á undanförnum árum. Ég get líka bent á að innflytjendur eru hér fjölmennir. Hlutfall útlendinga er hátt í 20 prósent á Íslandi og atvinnuþátttaka þeirra er há. Það eru hins vegar ýmsar aðrar áskoranir, ég get nefnt til að mynda menntun þeirra sem hingað koma. Við þurfum að huga miklu betur að þeim málum og það er það sem ég hef kallað eftir í ræðu um heildarstefnumótun, að við séum ekki bara að horfa á verndarkerfið, sem er mjög mikilvægt, heldur að við ræðum líka málefni útlendinga almennt.“
Forsætisráðherra sagði að í stjórnarsáttmálanum væri sérstaklega fjallað um samspil atvinnu- og dvalarleyfa og að vissulega hefði meira mátt gerast í þeim málum fyrr.
„En ég legg á það mjög mikla áherslu að félagsmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti vinni saman að því, ásamt aðilum vinnumarkaðarins og öðrum aðilum úr háskólasamfélaginu, að setja af stað vinnu sem greiðir fyrir því að hér verði hægt að sækja um atvinnuleyfi, eins og ég hef þóst lesa úr orðum fólks að sé mikill vilji til að gera hér á þingi, að það verði gert í sátt við aðila vinnumarkaðarins og að við mörkum þá stefnu að við séum ekki bara að taka á móti fleirum heldur að við séum að gera það vel og tryggja um leið góðar aðstæður fyrir öll þau sem hingað koma,“ sagði hún að lokum.