Heimsmarkaðsverð á olíu og jarðgasi hefur tekið miklum sveiflum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Verðið hækkaði skarpt á fyrstu dögum stríðsins, en hefur svo lækkað aftur að hluta til, eftir að Bandaríkin og aðrir orkuframleiðendur tilkynntu að þau ætluðu að framleiða meiri olíu og selja jarðgas til Evrópuríkja.
Þrátt fyrir það virðast verðsveiflurnar ekki vera á undanhaldi, en sérfræðingar telja að orkuverðið geti hækkað enn frekar í framtíðinni vegna flöskuhálsa og óvissu um áframhald stríðsins.
Meiri útflutningur og framleiðsla
BBC greindi frá því síðastliðinn föstudag að Bandaríkin hefðu náð samkomulagi náð við Evrópusambandið um aukinn útflutning á jarðgasi. Samkvæmt því munu Bandaríkin, ásamt öðrum ríkjum,flytja um 15 milljarða rúmmetra af jarðgasi aukalega til Evrópu í ár, til viðbótar við 22 milljarða rúmmetra sem sambandið flutti inn frá þeim í fyrra.
Samningurinn er kærkominn fyrir Evrópusambandið, sem stefnir að því að draga úr þörf sinni á innflutningi gass frá Rússlandi vegna innrásarinnar. Aukinn innflutningur á jarðgasi frá öðrum löndum er liður í þeirri áætlun, en sambandið hyggst einnig ætla að auka fjárfestingar sínar í grænum orkugjöfum.
Bandaríkjastjórn hefur einnig þrýst á olíufyrirtæki þar í landi að auka framleiðslu sína eftir að heimsmarkaðsverðið á hráolíu fór upp í methæðir fyrr í mánuðinum. Önnur olíuframleiðslulönd, líkt og Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi Arabía, hafa einnig tilkynnt að þau munu bregðast við þessum verðhækkunum með meiri framleiðslu.
Líkt og sést á mynd að ofan hefur heimsmarkaðsverð hráolíu, ásamt verð á jarðgasi á evrópskum mörkuðum, lækkað nokkuð á allra síðustu dögum. Þó er verðið enn langt frá því sem það var í byrjun árs.
Flöskuhálsar og óvissa um stríðið
Þó er óvíst hversu mikil áhrif þessi viðbrögð munu hafa á orkuverð til lengri tíma. Líkt og kemur fram í frétt BBC jafngildir umsaminn aukainnflutningur Evrópusambandsins á jarðgasi frá Bandaríkjunum í ár einungis tíu prósentum af því magni jarðgass sem það flytur inn frá Rússlandi.
Til lengri tíma stefna Bandaríkin þó að auka gasútflutning sinn enn meira, en efasemdir eru uppi um hversu mikið þau geta aukið framleiðslu sína.
Svipaðar efasemdir eru uppi um framleiðslu Bandaríkjanna á olíu, en samkvæmt frétt Financial Times eru flöskuhálsar byrjaðir að myndast í olíuframleiðslu þar í landi. Miðillinn segir flöskuhálsana vera margþætta, erfitt hafi reynst að fá rétt aðföng fyrir framleiðsluna í tæka tíð, en einnig séu vandamál með að finna starfsfólk.
Aðrir sérfræðingar hafa einnig bent á að verðið gæti hækkað enn meira vegna óvissu um framgang stríðsins til lengri tíma. Nadia Wiggen, orkusérfræðingur hjá norska fyrritækinu Pareto, segist í samtali við Dagens Næringsliv telja að fjárfestar hafi ekki að fullu tekið slíka óvissu með inn í reikninginn.
Samkvæmt Wiggen gæti stríðið varað mun lengur en vonir standa um þessa stundina og gæti það hækkað verðið á olíu og jarðgasi á næstu árum.