Gistinætur á hótelum voru rúmlega 496 þúsund í júní síðastliðnum samanborið við 190 þúsund í fyrra. Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum nærri fjórfölduðust á milli ára og voru tæplega 405 þúsund samanborið við tæplega 107 þúsund í fyrra. Hagstofa Íslands birti tölulegar upplýsingar um fjölda gistinátta í morgun á vef sínum.
Sé horft lengra aftur sést að fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna er nú orðinn meiri en var fyrir kórónuveirufaraldur. Í júní árið 2019 var skráður fjöldi erlendra gistinátta tæplega 362 þúsund. Skráðar gistinætur erlendra ferðamanna voru því tæplega 12 prósent fleiri í júní síðastliðnum heldur en í júní árið 2019.
Framboð og nýting aukist
Frá því í júní árið 2019 hefur framboð hótelherbergja aukist, fjöldinn farið úr 10.438 í 11.498. Til samanburðar var framboðið 8.889 í júní í fyrra. Nýtingin í júní síðastliðnum var einnig betri heldur en fyrir faraldur, 78,8 prósent samanborið við 72,1 prósent í júní árið 2019. Í júní í fyrra var nýtingin ekki nema 40 prósent.
Heildarfjöldi gistinátta á skráðum gististöðum í júní var rúmlega 1,1 milljón, samanborið við 486 þúsund í sama mánuði í fyrra. Til skráðra gististaða teljast meðal annars hótel, gistiheimili, íbúðagisting á borð við íbúðir sem leigðar eru út í gegnum Airbnb, orlofshús og tjaldsvæði.
Heildarfjöldi gistinátta erlendra ferðamanna á skráðum gististöðum var rúmlega 896 þúsund í júní sem er tæplega fjórföldun milli ára en heildarfjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í júní í fyrra nam 243 þúsundum. Í júní árið 2019 var fjöldi erlendra gistinátta á skráðum gististöðum tæplega 794 þúsund. Fjöldi erlendra gistinátta í heild var því tæplega 13 prósent meiri í júní í ár heldur en í júní árið 2019.
Dvölin lengri en fyrir faraldur
Þessar tölur eru í samræmi við aðrar tölur sem geta gefið vísbendingu um stöðu mála í ferðaþjónustu. Til að mynda hefur erlend kortavelta í júní aldrei verið eins mikil og í síðasta mánuði þegar hún nam 28,3 milljörðum króna. Í Hagsjá Landsbankans sem birt var um miðjan þennan mánuð kemur fram að í mánuðinum hafi rúmlega 176 þúsund erlendir ferðamenn farið í gegnum Keflavíkurflugvöll í júní. „Það er um 90% af komum erlendra ferðamanna miðað við júnímánuð 2019 en um 75% af því sem sást þegar mest lét árið 2018.“
Þessi aukning í fjölda gistinátta helst greinilega ekki alveg í hendur við þróun í fjölda flugfarþega. Skýringin á því er að öllum líkindum að finna í því að ferðamenn dvelja að jafnaði lengur á landinu í ár heldur en fyrir faraldur, samkvæmt tölum Ferðamálastofu.