Á meðal þeirra sem voru valdir til að kaupa í lokuðu útboði á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka fyrir rúmum tveimur vikum voru erlendir sjóðir sem höfðu líka keypt í almenna útboðinu í fyrrasumar. Sex þeirra sem keyptu í bankanum í aðdraganda skráningar í maí í fyrra seldu bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skráningu með umtalsverðum hagnaði, en söluandvirðið var um fjórir milljarðar króna. Á meðal þessara sex voru sjóðir Silver Point Capital, Fiera Capital, Lansdowne Partners og Key Square Partners.
Þrátt fyrir að þessir sjóðir hafi selt sig nánast strax út úr Íslandsbanka þegar þeir gátu eftir síðasta útboð þótti tilhlýðilegt að bjóða þeim þátttöku í lokaða útboðinu og veita þeim afslátt af kaupverði, en þeir 207 aðilar sem voru valdir til að kaupa fengu alls rúmlega fjögurra prósent afslátt á bréfunum. Silver Point keypti fyrir rúmlega 1,3 milljarða króna, Landsdown Partners fyrir næstum 556 milljónir króna, Fiera Capital fyrir 468 milljónir króna og KeySquare Partners fyrir 409,5 milljónir króna. Samtals keyptu þessir fjórir sjóðir því fyrir rúmlega 2,7 milljarða króna í lokaða útboðinu og fengu í staðinn 5,2 prósent hlut í Íslandsbanka.
Capital bætti við sig
Samtals seldu söluráðgjafar Bankasýslunnar ofangreindum sjóðum hluti fyrir um 4,7 milljarða króna í lokaða útboðinu. Þeir hlutir hafa þegar hækkað um rúmlega tíu prósent frá útboðsverðinu og því má ætla að þessi hópur erlendra sjóða hafi þegar hagnast um næstum hálfan milljarð króna á fjárfestingu sinni.
Þetta má lesa út úr lista yfir kaupendur að 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka sem var seldur í lokuðu útboði á 52,65 milljarða króna 22. mars síðastliðinn með samtals 2,25 milljarða króna afslætti. Virði þess hlutar sem hópurinn keypti hefur þegar hækkað samtals um 5,4 milljarða króna.
Erfitt hefur reynst að fá erlendra aðila til að ráðast í langtímafjárfestingar í félögum á íslenskum hlutabréfamarkaði, ef Marel og Icelandair eru undanskilin. Þannig var hrein nýfjárfesting erlendra aðila á Íslandi neikvæð um 60 milljarða króna í fyrra. Ástæða þess var aðallega sala þeirra á innlendum hlutabréfum, sérstaklega í Arion banka en erlendir fjárfestinga- og vogunarsjóðir sem áttu hlut í honum seldu fyrir 55 milljarða króna á árinu 2021.
Að sama skapi keyptu erlendir sjóðir í Íslandsbanka fyrir um tíu milljarða króna nettó á síðasta ári þegar bankinn var skráður á markað. Tveir erlendir sjóðir, Capital World Investors og áðurnefndur RWC Asset Management LLP, voru á meðal þeirra sem skuldbundu sig til að kaupa hlut í aðdraganda útboðs. Sá síðarnefndi hefur, líkt og áður sagði, þegar selt hluta af því sem hann keypti í fyrra. Capital Group hefur hins vegar verið að bæta jafnt og þétt við sig í Íslandsbanka og keypti viðbótarhlut í lokaða útboðinu fyrir rúman milljarð króna. Sjóurinn á nú 5,06 prósent hlut í bankanum og er fjórði stærsti eigandi hans á eftir lífeyrissjóðunum LSR og Gildi og íslenska ríkinu.