Alls voru 59.105 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu á Íslandi 1. júlí síðastliðinn og hafði þeim fjölgað um 4.126 frá 1. desember á síðasta ári, eða um 7,5 prósent, að því er fram kemur í tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands.
Meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi hefur úkraínskum ríkisborgurum fjölgað mest, eða um 490 prósent frá 1. Desember. Þannig fjölgaði úkraínskum ríkisborgurum um 1.171 frá 239 í desember og telja þeir nú 1.410. Þá hefur venesúelskum ríkisborgurum einnig fjölgað umtalsvert, eða um 57 prósent, og telja nú 696 einstaklinga.
Íslendingar 321 þúsund og Pólverjar brjóta 22 þúsund manna múrinn
Pólskum ríkisborgurum fjölgaði um 568 á tímabilinu og rufu þar með 22 þúsund manna múrinn og telja nú 5,8 prósent allra landsmanna. Þá fjölgaði rúmenskum ríkisborgurum um 407 eða 14,8 prósent og teljan ú 3.159.
Samkvæmt skráningu Þjóðskrár á fjölda einstaklinga með skráða búsetu á Íslandi eru nú búsett á íslandi 380.958 manns. Þar af eru einstaklingar með íslenskan ríkisborgararétt 321.853 talsins og fjölgaði þeim um 803 á tímabilinu frá desember til júlí.