Hinar miklu kjaradeilur sem nú standa yfir á vinnumarkaði eru farnar að hafa alvarlegar afleiðingar víða. Þær stéttir sem standa í baráttunni hafa margar hverjar verið mjög duglegar að koma því á framfæri við fjölmiðla hversu illa geti farið ef ekki verður gengið að kröfum þeirra. Augljóst handbragð þaulvanra almannatengla er á mörgum þessarra tilkynninga.
Það er skiljanlegt að stéttirnar leiti á náðir almannatengla til að reyna að ná markmiðum sínum. Læknar, sem undirrituðu nýjan kjarasamning í byrjun árs að loknu langvinni deilu, gerðu slíkt. Á meðan að á verkfalli þeirra stóð birtust daglegar fréttir af „neyðarástandi“ sem skapaðist vegna þess og offramboð var að allskyns efni sem borið var á fjölmiðla með það fyrir augum að styrkja kröfu lækna. Á endanum náðu læknar að knýja fram tugprósenta launahækkanir og fara þannig fram fyrir aðrar stéttir í kjarabaráttu sinni.
Læknar upplýstu eftir á að þeir hefði ráðið almannatengilinn Gunnar Stein Pálsson til að vera því til ráðgjafar í deilunni. Þeir sögðu að ráðningin á Gunnari Steini hafi alveg tvímælalaust hjálpað til við að knýja fram verulega kjarabætur.Spunin gekk fullkomlega upp.
Nú virðist það frekar vera regla en undantekning að reyndur sé spuni í kjaradeilum. Af honum eru margir, jafnt í fjölmiðlum sem stjórnmálum, brenndir eftir læknalotuna. Því er spurning hvort spunatilburðirnir séu frekar að skemma fyrir og ala á tortryggni en að hjálpa þeim málstað sem undir er.