Þessa fyrirsögn mátti sjá í einu dönsku dagblaðanna fyrr í vikunni. Tilefni hennar var sú ákvörðun danska menningarmálaráðherrans, Marianne Jelved, að aflýsa fyrirhuguðum fundi með Ai Weiwei einum þekktasta andófsmanni Kína. Danskir fréttaskýrendur segja stjórnmálamenn æ oftar setja viðskiptahagsmuni ofar mannréttindum í samskiptum sínum við stórþjóðir og þessi ákvörðun ráðherrans sé nýjasta dæmið.
Í lok síðasta mánaðar hófst í Kína dönsk listahátíð sem stendur fram á mitt næsta ár. Þessi hátíð er sú lang umfangsmesta sem Danir hafa staðið fyrir utan heimalandsins og þar verður í boði margt af því besta sem Danir hafa upp á að bjóða, á sviði tón- og myndlistar, kvikmynda og sviðslista. Margir danskir listamenn hafa ásamt embættismönnum menningarmálaráðuneytisins um nokkurra ára skeið unnið að undirbúningi hátíðarinnar í samvinnu við kínverska embættismenn. Það er þó ekki bara þessi listahátíð í Kína sem kínversk og dönsk stjórnvöld hafa tekið saman höndum um. Kínverska ríkið keypti nefnilega fyrir skömmu stórt hús á besta stað hér í Kaupmannahöfn og þar verður innan nokkurra mánaða opnað kínverskt menningarhús.
Marianne Jelved, menningarmálaráðherra Danmerkur, ásamt kínverskum embættismanni, við formlega opnun dönsku listahátíðarinnar í Kína.
Þetta umrædda hús stendur skammt frá Löngubrú, hýsti áður Musikkonservatoriet, tónlistarháskólann. Í næsta húsi er Ny Carlsberg Glyptotek, eitt þekktasta listasafn Danmerkur, Tívolí er svo þar við hliðina. Þetta nýja kínverska menningarhús er því enginn úthverfakofi (eins og einn þingmaður orðaði það) og þar ætla Kínverjar sér að reka öfluga menningarstarfsemi. Dönsk stjórnvöld lögðu blessun sína yfir þessar áætlanir og lýstu mikilli ánægju. Ekki munu fordæmi fyrir slíku kínversku menningarhúsi utan Kína. Kínverjar og Danir eru semsé í nánu samstarfi á menningarsviðinu
Kínareisa Litlu hafmeyjunnar
Augljóst tákn þess hve mikla áherslu Danir leggja á samvinnu við Kínverja er þeir lánuðu sjálfa Litlu hafmeyjuna á heimssýninguna í Shanghai árið 2010. Hún hafði setið á steini sínum við Löngulínu frá því í ágúst 1913, og þrátt fyrir mörg hundruð beiðnir um að fá þessa þekktustu myndastyttu á Norðurlöndum „lánaða“ á sýningar, utan lands og innan hafði öllum slíkum beiðnum verið synjað. Þangað til Kínverjar föluðust eftir henni. Eins og vænta mátti vakti styttan mikla athygli á sýningunni og dönsku ferðamálasamtökin telja að sú athygli og umfjöllun kínverskra fjölmiðla eigi stóran þátt í því að kínverkum ferðamönnum í Danmörku hefur fjölgað mikið á síðustu fjórum árum. Séu Kínverjar spurðir um Danmörku nefna þeir fyrst af öllu Litlu hafmeyjuna, svo H.C Andersen (sögur hans njóta mikilla vinsælda í Kína), í þriðja lagi danska hönnun og húsgögn, þar á eftir nefna þeir vindmyllur og danska bjórinn.
Hér má sjá þegar Litla hafmeyjan lagði af stað í langt ferðalag sitt til Kína.
"Kína er land danskra viðskiptatækifæra"
Þessi orð lét danskur ráðherra falla í blaðaviðtali fyrir skömmu. Hann sagði að sú mikla landkynning og meðbyr sem Danmörk hefði fengið í Kína væri járn sem Danir ættu sannarlega að hamra meðan það væri heitt, eins og hann komst að orði. Ráðherrann nefndi sérstaklega húsbúnað, mjólkurvörur (sem Kínverjar sækjast mjög eftir) og alls kyns tæknibúnað. Hann gat í þessu sambandi sérstaklega um Grundfos og Danfoss, tvö heimsþekkt dönsk fyrirtæki sem samtals eru með nálægt fimmtíu þúsund starfsmenn. Fyrir utan svo svínakjötið og allt annað, bætti ráðherrann við.
Allar dyr ekki lengur galopnar
Bandaríska dagblaðið The New York Times (NYT) fjallaði fyrir skömmu ítarlega um kínversk efnahagsmál og starfsemi erlendra fyrirtækja í landinu. Þar kemur fram að eftir að Kínverjar fengu aðild að Alþjóða viðskiptastofnuninni árið 2001 sóttust þeir ákaft eftir að fá erlend fyrirtæki, einkum stórfyrirtæki til landsins. Þetta er að breytast og nú standa ekki allar dyr lengur opnar, Kínverjar gera aðrar og meiri kröfur til erlendra fyrirtækja, farnir að velja vinina, eins og NYT orðar það. Þeir sem nú þegar eru góðvinir Kínverja standa því mun betur að vígi segir blaðamaður NYT og þótt hann nefni engin nöfn fer ekki á milli mála að Danmörk er í góðvinahópnum.
Af hverju hætti ráðherrann við að hitta andófsmanninn?
Þessa spurningu lögðu nokkrir danskir þingmenn fyrir Marianne Jelved. Var það vegna þess að ekki var pláss í dagskránni eða var það kannski vegna þess að ráðherrann vildi ekki styggja kínverska ráðamenn sem eru ekki par hrifnir af Ai Weiwei?
Marianne Jelved svaraði því til að þegar hún var komin til Kína og hitti þar ýmsa af æðstu ráðamönnum landsins hefði runnið upp fyrir sér að kannski væri réttast af sér að sleppa því að hitta Ai Weiwei. Hún hefði hinsvegar rætt mannréttindamál við kínverska ráðamenn og hitt ýmsa andófsmenn aðra. Þetta er, segja sumir danskir fjölmiðlar, ekkert annað en undirlægjuháttur og ótti við kínversk stjórnvöld.
Síður en svo eina dæmið
Þótt hér hafi aðeins verið fjallað um samskipti danskra ráðamanna við Kínverja væri hægt að nefna mörg hliðstæð mál. Fyrir nokkru var greint frá því í fjölmiðlum að Tyrkir hefðu sleppt úr haldi manni sem talið var að hefði, í febrúar í fyrra, reynt að skjóta danska rithöfundinn Lars Hedegaard. Tilræðimaðurinn var handtekinn í Istanbúl í apríl síðastliðnum. Þegar það fréttist hingað til Danmerkur að manninum hefði verið sleppt varð uppi fótur og fit, sumir þingmenn heimtuðu að stjórnmálasambandi við Tyrki yrði slitið, farið yrði fram á refsiaðgerðir af hálfu ESB og fleira var nefnt. Ekkert gerðist þó og fyrir nokkrum dögum lýsti utanríkisráðherrann því yfir að góð samskipti við Tyrki væru mikilvægari en svo að þeim yrði stefnt í hættu út af einum manni sem sleppt hefði verið úr fangelsi.
Lars Hedegaard.
Gunguháttur eða skynsemi?
Dagblaðið sem varpaði fram spurningunni sem er yfirskrift þessa pistils bar hana undir nokkra danska stjórnmálamenn og framámenn í viðskiptalífinu. Enginn þeirra vildi taka svo djúpt í árinni að tala um gunguhátt. Flestir sögðu sem svo að danskir stjórnmálamenn yrðu að hafa hagsmuni þessarar smáþjóðar að leiðarljósi og stíga varlega til jarðar hverju sinni. Það þýddi hinsvegar ekki að menn yrðu að beygja sig í duftið.
„Línudans er list” sagði einn sem við var rætt og bætti við „ef maður heldur ekki jafnvæginu dettur maður af kaðlinum.“