Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna og Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar ræddu báðar hugtakið traust í sambandi við bankasöluna í ræðum sínum undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Jódís benti í upphafi ræðu sinnar á að mikið hefði verið rætt um traust í samfélaginu þessa dagana eða öllu heldur skort á trausti.
„Eftir hrun hefur gengið erfiðlega að byggja upp traust í samfélaginu. Sala á hlut í Íslandsbanka hefur sýnt okkur hvað við erum á viðkvæmum stað þegar kemur að trausti. Því er útilokað annað en að farið sé yfir það hvernig þessari sölu var háttað, hvernig staðið var að hverju skrefi í ferlinu, og það er verið að gera. Við erum að rannsaka, við erum sem samfélag að ræða málið, við erum að bregðast við á öllum þeim sviðum sem þarf til,“ sagði hún.
Vinstri græn vilja skipa rannsóknarnefnd – seinna
Telur Jódís að það sé ekki til þess fallið að efla traust samfélagsins á stjórnvöldum að umræðan sé óreiðukennd eða byggist á órökstuddum upphrópunum. „Því hefur til dæmis ítrekað verið haldið fram að stjórnarflokkarnir vilji ekki skipa rannsóknarnefnd. Það er ekki rétt. Þvert á móti hafa félagar mínir í þingflokki Vinstri grænna endurtekið lýst yfir vilja til að velta við öllum steinum.“
Las hún í framhaldinu upp úr greinargerð með frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir þar sem segir að skipun rannsóknarnefndar sé úrræði sem ber einungis að nota ef einsýnt er að ekki sé unnt að notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði. Úrræðið sé sérúrræði og mikilvægt að á það sé litið sem slíkt og að til þess sé ekki gripið nema nauðsynlegt sé.
„Það þýðir ekki að þegar aðrar og augljósari leiðir hafa verið tæmdar verði ekki farið í að skipa rannsóknarnefnd,“ sagði hún. „Er ég glöð með söluferlið og útkomuna? Nei, bara hreint ekki. Er ég tilbúin til þess að farið verði ofan í hvern krók og kima þessa máls? Já, það er ég, og í kjölfarið verði ákvarðanir teknar um hvernig betur megi standa að sölu ríkiseigna þannig að hafið sé yfir allan vafa og að almenningur geti treyst faglegu, gagnsæi og heiðarlegu ferli í þessu sem öðru sem stjórnvöld gera hverju sinni.“
Skjaldborg um Bjarna Benediktsson
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði aftur á móti í sinni ræðu að Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn hefðu slegið skjaldborg um Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Það myndi ekki efla traust almennings til stjórnmálamanna eða Alþingis.
Hún sagði að það væri innihaldslaust hjal að halda því fram að tæma þyrfti önnur rannsóknarúrræði áður en rannsóknarnefnd Alþingis yrði sett á laggirnar eins og stjórnarandstaðan hefur óskað eftir.
„Það er ákvörðun Alþingis að gera það og það er ekkert í lögum sem segir að hitt þurfi að tæma. Það liggur fyrir hver úrræðin eru, hver úrræði ríkisendurskoðanda eru og hver úrræði rannsóknarnefnda eru. Það er skrifað inn í íslenska löggjöf,“ sagði hún.
Þórunn ráðlagði þingmönnum að kíkja á texta í þingskaparlögum þar sem segir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Komi beiðni um slíka athugun frá að minnsta kosti fjórðungi nefndarmanna skuli hún fara fram. Um athugun sína geti nefndin gefið þinginu skýrslu.
„Þetta úrræði hefur ekki verið tæmt og það er eins gott að þingmenn átti sig á því hvert eftirlitshlutverk háttvirtrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er. Við munum fá upplýsingar um afmörkun rannsóknar Ríkisendurskoðanda og í ljósi þeirrar afmörkunar mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nota þau lagalegu úrræði sem hún hefur til að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart hæstvirtum fjármála- og efnahagsráðherra,“ sagði Þórunn.