Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðast ekki vera á sama máli og Grikkir um það hversu stutt er í að samkomulag náist um skuldamál þeirra síðastnefndu. Samkomulagið er forsenda þess að leystir verði út milljarðar evra neyðarlán sem Grikkir þurfa á að halda eigi þeir að geta staðið í skilum við lánardrottna sína, sem eru fyrrnefndar stofnanir.
Grísk stjórnvöld hafa sagt að lítið beri í milli og stutt sé í að samkomulag náist. Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra landsins, reið á vaðið fyrr í vikunni og sagðist telja að samkomulag yrði í höfn innan viku.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, sagði í dag að samkomulag um neyðarlán til Grikkja verði að vera heildstætt og ekki gert í flýti. Hún fylgdi þannig í fótspor Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands sem sagði við Reuters í gær að öll bjartsýnin í málinu væri hjá Grikkjum. Það væri ekki neitt til í tilkynningum um að samkomulag væri að nást. Angela Merkel talaði einnig í þessa veru í morgun, þar sem hún sagði að mikla vinnu ætti enn eftir að vinna áður en samkomulag næst milli Grikkja og lánardrottna þeirra. Varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Valdis Dombrovskis, sagði einnig í fjölmiðlum í morgun að málinu hefði ekki miðað eins hratt áfram og því hefði átt að gera, og að Grikkir eigi enn eftir að koma fram með umfangsmeiri tillögur að umbótum.