Nýsköpunarráð Evrópusambandsins (EIC) hyggst fjárfesta beint í sprotafyrirtækjum í álfunni fyrir allt að 2,2 milljörðum króna í gegnum nýsköpunarhraðalinn EIC Accelerator sem var kynntur í vikunni. Formaður ráðsins segir hraðalinn gera sambandinu kleift að taka áhættur sem einkafjárfestar treysta sér ekki til þess að taka og hagnast á fjárfestingum sínum þegar vel gengur.
Meiri áhætta, en möguleiki á arðgreiðslur
Margrethe Vestager, sem fer fyrir stafrænni vegferð Evrópusambandsins, kynnti hraðalinn á miðvikudaginn, ásamt Mariya Gabriel, nýsköpunarráðherra sambandsins. Samkvæmt frétt Politico um málið felur þessi kynning í sér stefnubreytingu á fjármögnun ESB til tæknifyrirtækja, en hingað til hefur hún einungis falið í sér styrkveitingar til einkafjárfesta.
Með beinni fjárfestingu í tæknifyrirtækjunum er sambandið hins vegar að taka meiri áhættu, en gæti hins vegar fengið að njóta góðs af mögulegum arðgreiðslum fyrirtækjanna. Samkvæmt ESB munu arðgreiðslurnar renna beint í nýsköpunarsjóð sambandsins, sem nemur nú 10,1 milljörðum evra, eða um 1.500 milljörðum íslenskra króna.
Einkafjárfestar taka svo við keflinu
Formaður EIC, Jean-David Malo, sagði í viðtali við Politico að Evrópusambandið væri með þessu að taka áhættur sem enginn annar væri að taka. Samkvæmt honum er meginmarkmið hraðalsins að fylgja nýjum tæknifyrirtækjum í stækkunarfasa sínum þangað til að tækni þeirra er orðin reyndari og einkafjárfestar eru tilbúnir að taka við.
Samkvæmt vefsíðu nýsköpunarhraðalsins geta evrópsk sprotafyrirtæki, auk lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sótt um að taka þátt í hann. Þau fyrirtæki sem komast í gegnum hraðalinn fá svo beina hlutafjárinnspýtingu frá Evrópusambandinu að andvirði 0,5 til 15 milljóna Evra, en það jafngildir 73 til 2.200 milljónum króna. Sambandið mun svo leggja áherslu á að stækka fyrirtækið og reyna að fá fleiri fjárfesta að borðinu.