Sástu Esjuna í morgun? Ef þú gerðir það er líklegt að þú búir í alveg næsta nágrenni við hana. Allt frá því snemma dags hefur hún verið í móðu, séð frá Reykjavík, og heldur hefur móðan þést er liðið hefur á daginn.
Þetta sama fyrirbæri sem spillt hefur skyggni okkar verulega hefur að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings og ritstjóra veðurfréttavefsins Bliku, „klárlega“ átt sinn þátt í hinu „eldrauða“ sólarlagi sem margir hafa tekið andköf yfir síðustu daga. Meðal annars í gærkvöldi.
Móðuna kallar Einar réttilega mistur. Spurður í morgun hvað væri að valda því var hann með ýmsar kenningar en eftir því sem liðið hefur nær hádegi hefur skýrari mynd fengist á málið og í pistli á Facebook-síðu sinni segir hann gátuna um mistrið vera að leysast. „Á laugardag benti ég á að gráleitt mistur hafði verið áberandi víða um land undangengna tvo daga eða svo,“ skrifar Einar. „Og að það væri að líkindum gamall reykur eða iðnaðarmistur kominn austan úr álfum.“
Svo vildi til að snemma á sunnudag rigndi ágætlega og við það hreinsaðist loftið að mestu. En nú, þegar enn einn laugardagurinn nálgast, er mistrið farið að umvefja allt á ný. Einar skrifar að alveg frá því að stytti upp hafi lagskipting loftsins yfir landinu verið mjög áberandi, ekki síst suðvestanlands. Að auki hefur verið hægur vindur af breytilegri átt. Og svo er það blessað gosið í Geldingadölum. „Gosmóðan hefur risið upp undir hitahvörfin og borist í ýmsar áttir þessa daga og svælist aftur til jarðar.“
Þar sem ekkert hefur rignt hefur þessi gosmóða borist fram og til baka eftir því hvernig vindar blása. Hún hefur því safnast upp í neðsta lagi loftsins og veldur þannig þessu „bláhvíta mistri sem dregur verulega úr skyggni“.
Einar bendir á að hér og þar hafi brennisteinstvíoxíðið frá gosinu mælst markvert en ekki þó ekki lengi á hverjum stað.
Flugmaður tók mynd á miðvikudag með sýn til suðausturs þar sem glittir í Þingvallavatn á miðri mynd. Hún er tekin í um 2.500 metra hæð og á henni sjást skilin vel við hitahvarfið. Ofan skilanna var loftið „eins tært og það best getur orðið“, hefur Einar eftir flugmanninum í pistli sínum á Facebook.
„Nú er bar að bíða eftir næstu rigningu, nú eða að sterkari vindar blási gosmóðunni á haf út,“ skrifar Einar.
Í morgun hefur verið nokkuð svalt í Reykjavík og spurður hvort að mistrið sé þar að hafa einhver áhrif svarar Einar að móða sem þessi dragi úr upphitun jarðar í sólskini og getur á löngum tíma og á stóru svæði komið fram í lækkuðum hita. „Bíðum og sjáum hvernig þetta verður í sumar þegar almennt er orðið hlýrra og gosið trúlega enn við lýði.“