Evrópa er að hlýna hraðar en önnur svæði í heiminum, samkvæmt niðurstöðu nýrrar skýrslu frá Alþjóða veðurfræðistofnuninni. Skýrslan er gefin út í aðdraganda COP27, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í Egyptalandi í þessum mánuði. Það má búast við að stjórnmálaleiðtogar álfunnar fari að minnsta kosti sumir hverjir nokkuð lúpulegir til ráðstefnunnar þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er ekki að dragast saman í Evrópuríkjum almennt eins og stefnt er að heldur að aukast. Þjóðir heims hafa hins vegar sammælst um og heitið því að draga úr losun til að halda áhrifum loftslagsbreytinga í skefjum.
Bráðabirgðauppgjör aðildarríkja Evrópusambandsins sýnir að losun gróðurhúsalofttegunda jókst um fimm af hundraði milli áranna 2020 og 2021. Er þetta einkum rakið til aukinna umsvifa eftir að losna tók um höft vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Engu að síður var losunin enn sex prósentum minni en hún var 2019, árið áður en faraldurinn reið yfir.
Í frétt CNN um skýrsluna er bent á að jörðin hafi hlýnað að meðaltali um 1,2 gráður frá iðnbyltingu. Vísindamenn hafa komist að því að halda þurfi hækkuninni innan 1,5 gráða til að forðast alvarlegustu áhrif loftslagshamfara.
Samkvæmt skýrslunni þá hefur hitastig í Evrópu hækkað tvöfalt meira en að meðaltali á heimsvísu síðustu þrjá áratugi eða um 0,5 gráður á hverjum þessara áratuga.
Ljóst þykir að þessar miklu loftslagsbreytingar eru þegar farnar að segja til sín. Í júlí síðastliðnum var fjöldi skógarelda fjórum sinnum meiri en að meðaltali síðustu fimmtán árin þar á undan. Lífshættuleg og langvarandi hitabylgja gekk yfir mörg Evrópuríki. Í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, jókst álag á heilbrigðiskerfið af þessum sökum mikið og innviðir allir stóðu vart undir sér. M.a. þurfti að loka neðanjarðarlestarkerfum tímabundið vegna hitanna.
Þá léku fordæmalausir þurrkar mörg svæði grátt síðasta sumar. Ár þurrkuðust upp og gjöful landbúnaðarsvæði sömuleiðis. Aðeins nokkru áður höfðu hins vegar hamfaraflóð geisað.
„Evrópa er lifandi táknmynd hins hitnandi heims og minnir okkur á að jafnvel samfélög sem geta undirbúið sig vel eru ekki örugg þegar kemur að áhrifum öfgafullra veðurbreytinga,“ segir Petteri Taalas, framkvæmdastjóri Alþjóðlegu veðurfræðisstofnunarinnar.
Hlýnunin hefur til að mynda haft þau áhrif að jöklar Alpafjallanna hafa misst um 30 metra af þykkt sinni frá árinu 1997 og á Grænlandi rigndi í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust á toppi Grænlandsjökuls. Bráðnun jökla jarðar hækkar yfirborð sjávar sem aftur veldur margvíslegum vanda.
Samfélög Evrópu eru viðkvæm fyrir breytingum á loftslagi en Evrópa er einnig í broddi fylkingar þegar kemur að alþjóðlegum tilraunum til að draga úr loftslagsbreytingum og þróa lausnir til að aðlagast hinu nýja loftslagi sem Evrópubúar munu þurfa að búa við. Taalas segir að vissulega sé viðleitni Evrópuríkja og vilji til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda góð en að spýta þurfi í lófana eigi tilætlaður árangur að nást.