Fjármálaráðherrar evruríkjanna, evruhópurinn svokallaði, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Grikkir hafi slitið viðræðum um áframhaldandi neyðarlánaveitingu til þeirra seint í gærkvöldi. Í ljósi þessa hafna þeir framlengingu á núverandi fyrirkomulagi, eins og Grikkir höfðu óskað eftir, sem þýðir að á þriðjudag mun allt samkomulag um lánamál Grikkja renna út.
Ráðherrarnir hafa fundað í dag í Brussel. Hlé var gert á fundinum og Jeronen Dijsselbloem, forseti hópsins, hélt blaðamannafund þar sem þetta kom fram. Í kjölfarið var fundi evruríkjanna haldið áfram án Grikkja.
Dijsselbloem sagði að tillögurnar sem lánardrottnar Grikkja höfðu lagt á borðið hefðu verið eins sveigjanlegar og hægt hefði verið. Það væri því afskaplega slæmt að grísk stjórnvöld hefðu í gærkvöldi ákveðið að hafna tillögunum, jafnvel þótt þær hafi ekki verið orðnar endanlegar á þeim tímapunkti, en eins og greint var frá seint í gærkvöldi ákváðu stjórnvöld að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar.
Sú atkvæðagreiðsla fer ekki fram fyrr en 5. júlí, en núverandi lánasamningar renna út á þriðjudaginn, 30. júní.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, hélt einnig blaðamannafund þar sem hann sagði að ef gríska þjóðin kysi með samkomulagi lánardrottna þá yrði því framfylgt. Dijsselbloem sagði hins vegar á sínum fundi að þrátt fyrir að stjórnvöld segðu það væri erfitt að taka það trúanlegt. Yfirleitt virkuðu svona umbótatillögur aðeins ef stjórnvöld styddu úrbæturnar. Hann sagði ekki ljóst hvernig Grikkir ætluðu að lifa af án þess að fá fjármagn. Þessi skref sem tekin væru í dag væru vegna þess að evrusvæðið þyrfti að vernda sjálft sig.
Varoufakis gagnrýndi hina fjármálaráðherrana harðlega á sínum fundi. Hann sagði þá skemma eigin trúverðugleika sem lýðræðislegt samband nú þegar þeir hefðu neitað grísku þjóðinni um að fá að ráða. Það væru miklar líkur á því að gríska þjóðin færi gegn ríkisstjórninni og kysi með samkomulaginu. Hann sakaði lánardrottnana um að fara aftur í gamla skilmála fyrir neyðarlánum, sem myndu leiða til frekari kreppu, frekar en að leyfa Grikkjum að anda og koma hagvexti í gang. „Þetta er sorglegur dagur fyrir Evrópu.“