Vegagerðin ákvað fyrir helgi að taka tilboði Eysteins Þóris Yngvasonar í rekstur Hríseyjarferjunnar á árunum 2023-2025, en Eysteinn Þórir átti, fyrir hönd óstofnað einkahlutafélags, lægsta boðið sem barst í útboði sem Vegagerðin stóð fyrir nú undir lok ársins.
Tilboð Eysteins Þóris hljóðaði upp á 297,6 milljónir króna án vsk., sem samsvarar 85,3 prósentum af 347,7 milljóna króna kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Eysteinn Þórir er ekki ókunnur ferjurekstri, en hann rak Viðeyjarferjuna frá árinu 1993 til 2008.
Alls bárust þrjú tilboð í rekstur Hríseyjarferjunnar, en hin tvö voru vel yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.
Félagið Ferry ehf. á Árskógssandi bauð 489 milljónir króna án vsk. í reksturinn eða 140,6 prósent af kostnaðaráætlun og félagið Andey ehf. í Hrísey, sem hefur annast reksturinn undanfarin fimm ár, bauð 534,3 milljónir króna, eða sem samsvarar 153,7 prósentum af kostnaðaráætluninni.
Það verður því félag Eysteins sem að óbreyttu mun taka að sér rekstur ferjuleiðarinnar til og frá Hrísey næstu árin, en notast er við ferjuna Sævar, sem er í eigu Vegagerðarinnar, í siglingunum.
Hríseyingar óttast fækkun ferða
Nokkur kurr var meðal Hríseyinga eftir að útboðsgögnin voru kynnt í októbermánuði, og þá ekki síst varðandi það að Vegagerðin óskaði eftir tilboðum í 2.840 árlegar ferðir, með möguleika á 20 prósent viðbót, en núna er að renna sitt skeið samningur sem kveður á um að 3.100 ferðir séu sigldar á milli Árskógssands og Hríseyjar á ári.
„Almenn sátt ríkir um núverandi ferjuáætlun og getur breyting á áætlun eða fækkun ferða haft veruleg áhrif á skilyrði til búsetu í Hrísey. Niðurfelling á ákveðnum ferðum getur haft þau áhrif að ómögulegt yrði fyrir íbúa að sækja atvinnu í landi ásamt takmörkun á möguleikum íbúa að stunda félagsstarf, íþróttastarf, sækja menningarviðburði svo eitthvað sé nefnt. Teljum við fráleitt að það sé á valdi rekstraraðila að ákveða ferjuáætlun, hún ætti að vera föst í útboðsgögnum og breytingar á henni gerðar í samráði við íbúa og notendur þjónustunnar,“ sagði í bréfi sem formaður hverfisráðs Hríseyjar, verkefnastjóri byggðaverkefnisins Áfram Hrísey og forsvarsmaður ferðamálaráðs eyjunnar sendu á þingmenn í nóvembermánuði.
Vegagerðin segir hana ekki standa til
Vegagerðin brást við framsettri gagnrýni með tilkynningu, þar sem kom fram að ferðum í Hrísey yrði ekki fækkað og breytingar á siglingum Hríseyjarferju væru ekki á borðinu, þó að Vegagerðin vildi auka svigrúm til að ekki þyrfti að sigla að óþörfu með tóma ferju.
„Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á ferðum ferjunnar út í Hrísey. Hins vegar viljum við ekki sigla tómri ferju á milli lands og Hríseyjar. Því viljum við hjá Vegagerðinni hafa svigrúm til að breyta áætlun í samráði við íbúa ef útlit er fyrir mjög slæma nýtingu á ferðum ferjunnar. Það er best að sigla ekki ef það eru ekki farþegar um borð. Það er stóra málið,“ var haft eftir Halldóri Jörgenssyni forstöðumanni almenningssamgangna hjá Vegagerðinni í tilkynningu Vegagerðarinnar.