Í lok síðasta mánaðar voru 6.279 manns atvinnulausir á Íslandi. Það eru 2.883 færri en voru skráðir á atvinnuleysisskrá í febrúar 2020, í síðasta mánuðinum áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Hlutfallslega var atvinnuleysið þá fimm prósent en er í dag 3,2 prósent. Á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð mældist atvinnuleysið mest í janúar 2021, 11,6 prósent, og heildaratvinnuleysi að meðtöldum þeim sem enn voru á hlutabótum í þeim mánuði var 12,8 prósent.
Það þýddi að alls 26.403 voru annað hvort atvinnulausir að öllu leyti eða í minnkuðu starfshlutfalli á þeim tíma, eða rúmlega 20 þúsund fleiri en um síðustu mánaðamót.
Atvinnuleysið hefur því, samandregið, skroppið gríðarlega saman á síðustu mánuðum samhliða því að takmörkunum sem settar voru á vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt. Hlutfallslega hefur það ekki verið lægra síðan í apríl 2019.
Fjöldi langtímaatvinnulausra mun meiri
Það segir þó ekki alla söguna. Í síðustu mánaðaskýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að 2.387 manns hefðu verið atvinnulausir í meira en tólf mánuði í lok júlí. Það eru mun fleiri en glímdu við slíkt atvinnuleysi fyrir faraldurinn. Í febrúar 2020, þegar atvinnuleysi var hlutfallslega meira en það er núna, höfðu 1.893 verið án atvinnu í ár eða lengur.
Svipuð staða hjá erlendum ríkisborgurum
Atvinnuleysi hjá erlendum ríkisborgurum nú er á svipuðum stað og fyrir faraldurinn ef horft er á það hlutfallslega. Um síðustu mánaðamót mældist það 7,3 prósent hjá erlendum atvinnuleitendum á sama tíma og atvinnuleysi heilt yfir mældist, líkt og áður sagði, 3,2 prósent. Það þýðir að 2.842 erlendir atvinnuleitendur voru án atvinnu í lok júlí, sem gerir þá að 43 prósent allra atvinnulausra. Það er sama hlutfall atvinnulausra og erlendir atvinnuleitendur voru í febrúar 2020.
Alls bjuggu 59.490 erlendir ríkisborgarar á Íslandi um mitt þetta ár. Þeir eru 15,6 prósent allra íbúa. Því liggur fyrir að atvinnuleysi er mun meira á meðal þeirra en íslenskra ríkisborgara.