Fjöldi fullbúinna íbúða hefur fækkað á hvern fullorðinn einstakling á síðustu árum og er hann nú 8 prósentum minni en hann var fyrir 14 árum síðan. Þetta kemur fram þegar tölur úr fasteignagátt Þjóðskrár eru bornar saman við mannfjöldatölur Hagstofu.
Líkt og sjá má á mynd hér að neðan voru rúmlega 59 íbúðir á hverja 100 íbúa sem voru eldri en 20 ára árið 2007. Ef frá er talin fjölgun á milli áranna 2009 og 2010 hefur þeim fækkað stöðugt síðan þá. Nú eru til tæplega 55 íbúðir á hverja 100 fullorðna, en það er um 8 prósentum minna en á árunum fyrir hrun.
Skortur ólíklegur að mati Landsbankans
Samkvæmt Hagspá Landsbankans, sem kom út á miðvikudaginn í síðustu viku, hefur fjöldi íbúða á hvern íbúa fjölgað töluvert hér á landi, samhliða mikilli aukningu nýbygginga á síðustu árum. Þetta hlutfall er nú svipað því sem var árin 2008 og 2016, en nokkuð hærra á tímabilinu 2017-2019.
Hagdeild Landsbankans bætir við að hægt hafi nú á mannfjölgun vegna minni fjölgunar aðfluttra umfram brottfluttra til landsins og telur því að ólíklegt sé að skortur ríki á húsnæði um þessar mundir.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um hefur fjöldi ófullbúinna íbúða dregist saman, en hann var fjórðungi minni í síðustu viku miðað við þarsíðustu áramót.
Þessi þróun er í samræmi við ályktanir í nýlegri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um stöðu og þróun mála á íbúðamarkaði í ár. Þar var búist við miklum samdrætti á byggingarmarkaði, en samkvæmt stofnuninni er hætt við að framboð nýrra eigna dragist saman á næstu árum vegna þess. Verði þessi samdráttur viðvarandi býst HMS við að óuppfyllt íbúðaþörf muni aukast á næstunni.