Árið 2013 voru 113,5 opinberir starfsmenn á hverja þúsund íbúa í landinu. Næstu árin lækkaði fjöldinn lítillega og fór lægst í 111,7 árið 2018. Í fyrra gerðist það hins vegar að í fyrsta sinn í mörg ár að fjöldi opinberra starfsmanna á hverja þúsund íbúa fór 110, en þá voru þeir 109,5 talsins.
Þetta kemur fram á vefnum opinberumsvif.is sem opnaður var í síðustu viku. Þar er hægt að finna lykiltölur um rekstur hins opinbera. Gögn síðunnar eru sótt til Hagstofu Íslands, Skattsins og Fjársýslunnar, sem hefur yfirumsjón með bókhaldi og uppgjöri ríkissjóðs.
Á síðasta ári jókst atvinnuleysi á Íslandi gríðarlega og náði methæðum. Í janúar síðastliðnum var heildaratvinnuleysi hérlendis 12,8 prósent sem þýddi að alls 26.403 einstaklingar voru án vinnu að öllu leyti eða hluta. Þetta atvinnuleysi kom fyrst og síðast fram á almenna markaðnum, og sérstaklega í ferðaþjónustu. Opinberir starfsmenn fundu lítið fyrir þrengingunum á atvinnumarkaðnum, enda stærstur hluti þeirra starfandi við ýmis konar þjónustustarfsemi sem hefur ekki verið skorin niður. Það var því viðbúið að hlutfall opinberra starfsmanna af vinnandi fólki myndi aukast. Og það gerðist.
Um 40 þúsund starfsmenn
Í fyrra voru opinberir starfsmenn 27 prósent af vinnumarkaðnum, sem var 1,1 prósentustigi meira en það var árið áður. Það er þó lægra hlutfall en var á árunum 2014 (28 prósent) og 2015 (27,2 prósent), þegar atvinnuleysi var miklu minna en það mældist á árinu 2020.
Launakostnaður hins opinbera var 473 milljarðar króna á síðasta ári. Þar er um að ræða starfsfólk bæði ríkisins, sem eru um 18 þúsund talsins, og það sem starfar hjá sveitarfélögum, sem eru um 22 þúsund talsins.
Á tímabilinu sem um ræðir hér að ofan hafa setið þrjár ríkisstjórnir. Fyrst sat ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 2013 til 2016. Svo sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíð í nokkra mánuði á árinu 2017. Loks er um að ræða sitjandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem setið hefur að völdum frá því í lok árs 2017.
Laun opinberra starfsmanna enn mun lægri
Það vekur athygli að hlutfall launakostnaðar af heildarútgjöldum hafi haldist stöðugt á síðustu árum, í ljósi þess að haustið 2016 var gert samkomulag um að samræma opinbera og almenna lífeyriskerfið með þeim hætti að opinberir starfsmenn myndu ekki njóta lengur betri lífeyrisréttinda en þeir sem starfa á almennum markaði. Í staðinn áttu þeir að fá betur borgað og meiri launahækkanir næsta áratuginn til að jafna stöðu opinberra starfsmanna og annarra í launaþróun.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans, sem send var til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í september 2016, kom fram að laun opinberra starfsmanna væru um það bil 16 prósent lægri en starfsmanna á almennum vinnumarkaði á þeim tíma. Það var því launamunurinn sem þurfti að vinna upp næsta áratuginn umfram almennar launahækkanir.
Það var því launamunurinn sem þurfti að vinna upp næsta áratuginn umfram almennar launahækkanir. Innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) er fullvinnandi starfsfólk á almenna markaðnum til að mynda enn með 16,4 prósent hærri laun en ríkisstarfsmenn og 32 prósent meira en starfsmenn annarra sveitarfélaga.