Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, þurfti að þola miklar háðsglósur þegar hann var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um að ríkið kannaði möguleika þess að byggja áburðarverksmiðju. Í greinargerð með tillögunni sagði m.a.: „Brýn þörf er á að skapa ný vel launuð störf hér á landi til að vinna bug á atvinnuleysi, til að laða brottflutta Íslendinga aftur heim og til að vekja ungum Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni."
Þorsteinn lét það ekki stöðva sig og lagði tillöguna aftur fram á haustþingi 2014 og sýndi þar með staðfestu hugsjóna sinna gagnvart umræðunni. Hann hefur líka, líkt og margir þingmenn Framsóknarflokksins, verið mjög umhugað um að allir skilji hversu stórkostleg aðgerð leiðréttingin, niðurfærsla á fasteignaskuldum, sé. Til þess að koma þeim skilaboðum, og þeirri hugsjón, á framfæri hafa þeir flutt fjölmargar ræður í þinginu og skrifað blaðagreinar af miklum móð.
Þorsteinn flutti eina slíka ræðu í vikunni. Þar gerði hann lítið úr því að 1.250 heimili sem hefðu greitt auðlegðarskatt hefðu fengið 1,5 milljarð króna í leiðréttingu og benti á að það þýddi „að það eru 55.800 heimili sem skipta með sér um 88,5 milljörðum". Hann endurtók þessa fullyrðingu í grein í Fréttablaðinu í gærmorgun. Þar stóð: „Þannig hefur nokkuð farið fyrir því í fjölmiðlum að 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu 1,5 milljarða í leiðréttingu. Það þýðir að 55.800 heimili skiptu með sér rúmum 88 milljörðum".
Samkvæmt nýbirtri skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um leiðréttinguna og samkvæmt öllum kynningarfundunum sem haldnir hafa verið um aðgerðina er heildarumfang hennar 80 milljarðar króna. Því er eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig Þorsteinn fær það út, og segir frá í ræðu og riti, að umfangið séu tæpir 90 milljarðar króna. Kannski veit hann eitthvað sem við hin vitum ekki?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.