Átján ára þroskaskert stúlka sem var leitað að í dag og í kvöld fannst inni í bíl ferðaþjónustu fatlaðra, sem var lagt við heimili bílstjórans. Rúv greindi frá þessu í kvöld. Lýst var eftir stúlkunni, Ólöfu Þorbjörgu Pétursdóttur, þegar uppgötvaðist að hún hafði ekki skilað sér í Hitt húsið eftir hádegið í dag. Björgunarsveitir leituðu að henni og hún kom í leitirnar heil á húfi um klukkan átta í kvöld. Þá hafði hún væntanlega verið inni í bílnum frá því klukkan eitt í dag.
Smári Ólafsson, sviðsstjóri akstursþjónustu Strætó, sem sér um ferðaþjónustu fatlaðra, vildi lítið tjá sig um málið þegar Kjarninn náði í hann nú í kvöld. „Við erum gríðarlega fegin að hún hafi fundist heil á höldnu,“ sagði hann. Það væri mikilvægast á þessu stigi málsins, sagði Smári, en bætti því við að enn væri verið að kortleggja hvað gerðist og fá upplýsingar frá þeim sem hlut áttu að máli. Þegar því lýkur er von á yfirlýsingu frá Strætó. Smári sagði þó við Kjarnann að svo virtist sem stúlkan hafi falið sig í bílnum.
Ólöf átti að vera í Hinu húsinu eftir hádegið í dag. Bíll frá ferðaþjónustu fatlaðra keyrði hana þangað úr Fjölbrautaskólanum í Ármúla og hélt bílstjórinn að hún hefði farið úr bílnum. Það var hins vegar ekki fyrr fyrr en klukkan fjögur að í ljós kom að hún kom aldrei í Hitt húsið, samkvæmt tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.