Öll verkefni tengd fasteignaskrá og fasteignamati verða flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Frá þessu er sagt í tilkynningu á vef stjórnarráðsins, en markmiðið er sagt að það að „einfalda og efla þjónustu við fólk og fyrirtæki á sviði húsnæðismála og tryggja enn frekari samhæfingu milli ríkisstofnana og sveitarfélaga“.
Þjóðskrá Íslands mun eftir þessa breytingar ekki hafa neitt að gera með utanumhald um skráningu fasteigna, en mun hins vegar samkvæmt tilkynningu innviðaráðuneytisins „áfram veita öfluga þjónustu við skráningu einstaklinga.“ Hjá Þjóðskrá starfa um 100 manns í dag, en um helmingur þeirra mun færast í ný störf hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
„Engar uppsagnir verða í tengslum við þessi umskipti og starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins áfram starfræktar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Þessar breytingar voru kynntar á fundum innan beggja stofnana í dag og til stendur að vinna að þeim í nánu samstarfi stofnananna tveggja og búið er að skipa sérstakan stýrihóp til þess verks. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra mun leggja fram frumvarp á vorþingi um breytingar á lögum sem tengjast þessum breytingum og þá munu breytingarnar formlega taka gildi.
Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins munu öll verkefni sem nú heyra undir Fasteignasvið Þjóðskrár, þ.e. fasteignaskrá, fasteignamat og útreikningur á álagningu sveitarfélaga, flytjast yfir til HMS og sameinast starfsemi tengdri mannvirkjaskrá.
Ýmis verkefni á stoðþjónustusviðum Þjóðskrár færast einnig yfir, s.s. á sviði hugbúnaðarþróunar, reksturs, gagna og sérvinnslu, þjónustu og eða sölu, sem snýr að fasteignaskrá og tengdum skrám.
Einn staður fyrir erindi tengd fasteignum og húsnæðismálum
Í tilkynningu er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra að með því að færa fasteignaskrána til HMS geti „fólk nú leitað á einn stað með erindi tengd fasteigum og húsnæðismálum.“
„Með þessum breytingum er stigið stórt skref til að samhæfa og einfalda þjónustu á vegum hins opinbera á sviði húsnæðismála. Tilgangurinn er að auka yfirsýn til að gera stjórnvöldum kleift að gera markvissari aðgerðir til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Þjóðskrá Íslands gegnir mikilvægu hlutverki eftir breytingarnar og þar starfar öflugt fagfólk, sem mun taka þátt í að efla enn frekar þjónustu á vegum stofnunarinnar,“ er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningu ráðuneytisins.
Hermann Jónasson forstjóri HMS segir „skýr sóknarfæri til að bæta þjónustu á þessu mikilvæga sviði“ og Aðalsteinn Þorsteinsson, starfandi forstjóri Þjóðskrár, segir breytingar veita Þjóðskrá tækifæri til að skilgreina hlutverk sitt með skýrum hætti með skýrari skilum á milli stofnana, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins.