Verð á fasteignum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hefur staðið í stað eða lækkað á milli mánaða frá því í vor, eftir að hafa hækkað mikið eftir að faraldurinn byrjaði. Þetta kemur fram þegar nýleg tölfræði um íbúðamarkaðinn er skoðuð í löndunum þremur.
Samkvæmt fagfélagi fasteignasala í Noregi, Eiendom Norge, lækkaði fasteignaverðsvísitalan þar í landi um 0,2 prósent milli mánaða í síðasta mánuði. Lækkunin var svo tvöfalt meiri í Osló, eða 0,4 prósent. Sama þróun virðist vera að eiga sér stað í Stokkhólmi, þar sem fasteignaverð lækkaði um 0,3 prósent milli apríl og maí.
Lækkunin er þó ekki jafnmikil ef tekið er tillit til árstíðarbreytinga, en virknin á fasteignamarkaðnum er gjarnan minni á sumrin heldur en á veturna. Þó hafa árstíðaleiðréttar verðhækkanir milli mánaða verið mun minni á síðustu mánuðum í Noregi heldur en í vetur.
Henning Lauridsen, framkvæmdastjóri Eiendom Norge, segir í viðtali við norska blaðið Dagens Næringsliv að það líti út fyrir að toppnum á verðhækkunum þar í landi hafi verið náð í mars og að búast megi við hóflegum verðhækkunum í framtíðinni.
Í Danmörku var nokkuð mikil verðhækkun í vor, en samkvæmt nýlegri frétt frá Berlingske eru nú merki um að fasteignamarkaðurinn þar í landi sé að kólna aftur, þar sem fleiri íbúðir eru nú til sölu heldur en áður.
Lise Nytoft Bergmann, fasteignahagfræðingur í Nordea, segir í viðtali við danska blaðið Berlingske að vaxandi framboð íbúða á sölu styrki þá tilgátu að þensla síðustu mánaða á fasteignamarkaðnum sé fyrst og fremst bundið við heimsfaraldurinn. Því meiri takmarkanir sem hafa verið í gildi, því meiri hefur áhuginn á fasteignakaupum verið.