Áhrifasvæðið myndi ná langt inn á óbyggð víðerni

Bæði Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun vilja að fuglarannsóknir vegna áformaðs vindorkuvers á Melrakkasléttu standi í tvö ár. Á svæðinu eru uppeldisstöðvar rjúpu. Þeim er sérstaklega hætt við að fljúga á hindranir. Myllurnar yrðu um 200 metra háar.

Hið áformaða virkjanasvæði er í grænum lit fyrir miðri mynd.
Hið áformaða virkjanasvæði er í grænum lit fyrir miðri mynd.
Auglýsing

Skipulagsstofnun féllst á matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum vindorkuvers á Melrakkasléttu með skilyrðum sem sett eru fram í sautján liðum. Bent er m.a. á að fram þurfi að fara mat á áhrifum á óbyggð víðerni þar sem hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði einkennist af víðfeðmu flatlendi og sjáist því víða að. Þá leggur stofnunin á það sérstaka áherslu að í frummatsskýrslu, sem er næsta skref í mati á umhverfisáhrifum, verði við nálgun og framsetningu mats á áhrifum á fugla fylgt bestu starfsvenjum og að rannsóknir á þeim þurfi að standa í að minnsta kosti tvö ár.

Fyrirtækið Qair Iceland áformar að byggja og reka vindorkuver á Melrakkasléttu og er verkefnið kennt við örnefnið Hnotastein. Það bóndabýli sem stendur næst framkvæmdasvæðinu er í 2,9 kílómetra fjarlægð og næsta þorp við framkvæmdasvæðið er Kópasker, í um 6,5 km fjarlægð.

Auglýsing

Í tillögum fyrirtækisins kemur fram að áætluð stærð versins, með 34 vindmyllum, yrði allt að 200 MW og að það yrði reist á rúmlega 30 ferkílómetra landssvæði. Um er að ræða alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (IPA) fyrir æður, ritu, kríu, álku, lóm og himbrima á varptíma og á fartíma fyrir rauðbrysting, sanderlu, sendling og tildru. Strönd Melrakkasléttu er auk þess mikilvægur viðkomustaður farfugla á leið milli Evrópu og Grænlands/Kanada.

Þá hefur Náttúrufræðistofnun Íslands lagt til að Melrakkaslétta fari á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem á að njóta forgangs um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum. Melrakkaslétta er tilnefnd á skrána vegna ferskvatnsvistgerða, fjöruvistgerða og fugla.

Gert er ráð fyrir að uppbygging vindorkuversins fari fram í tveimur áföngum. Áætlanir miðast við að vindmyllur verði allt að 200 metrar að hæð. Til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn 74 metrar. Fyrirhugað er að lagðir verði nýir 4,5 metra breiðir malarslóðar um svæðið og að hverri vindmyllu. Gert er ráð fyrir að jarðstrengir frá hverri myllu verði grafnir meðfram slóðunum og aðalvegi að safnstöðinni og stöðin síðan tengd flutningskerfi Landsnets með háspennulínum. Undirstöður undir hverja vindmyllu verða um 1600 m² og vinnuplan við vindmyllur rúmlega 2200 m². Heildarefnisþörf fyrirhugaðra framkvæmda er áætluð um 250.000 m³.

Ekki tekið til meðferðar í rammaáætlun

Skipunartíma verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar lauk í vor og í tillögum hennar, á flokkun virkjunakosta, voru fimm vindorkukostir teknir fyrir. Vindorkuverið Hnotasteinn var ekki einn þeirra og á því enn eftir að fara í gegnum það matsferli sem lýkur með þingsályktunartillögu sem Alþingi þarf að samþykkja. Ferlið er hins vegar í miklum hnút og enn á eftir að afgreiða þingsályktunartillögu að 3. áfanga áætlunarinnar sem byggir á lokaskýrslu verkefnisstjórnar sem gefin var út í ágúst árið 2016.

Rjúpum er sérstaklega hætt við að fljúga á hindranir. Mynd: Náttúrufræðistofnun/Ólafur K. Nielsen

Skipulagsstofnun samþykkir matsáætlun Qair vegna áformaðs vindorkuvers á Melrakkasléttu með ýmsum skilyrðum og er í ákvörðun hennar mest áhersla lögð á rannsóknir á fuglum enda segir í ákvörðun hennar að mat á áhrifum á fugla sé einn þýðingarmesti þáttur umhverfismats vindorkuvera.

Fram kemur í tillögu Qair að aðferðafræði sú sem stuðst er við til að rannsaka fuglalíf á svæðinu taki mið af leiðbeiningum Scottish Natural Heritage (SNH) þar sem mælt sé með að fuglalíf á tilteknu framkvæmdarsvæði sé kannað í tvö ár nema hægt sé að færa rök fyrir því að þess sé ekki þörf.

Sögðu lítinn fjölbreytileika fugla á svæðinu

Fyrstu niðurstöður fyrirtækisins, eftir 162 klukkustundir af sjónarhólsmælingum á tímum haustfars árið 2020, sýna, að því er fram kemur í tillögunni, lítinn fjölbreytileika fugla og að fuglalíf á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sé fremur fábreytt. Því metur framkvæmdaraðili það svo að yfirgripsmiklar rannsóknir á einu ári séu nægjanlegar til að framkvæma áreiðanlegt mat á áhrifum framkvæmdarinnar á fuglalíf. Þessu eru bæði Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands ósammála.

Á kortinu eru merkt inn svæði sem njóta sérstakrar verndar á Melrakkasléttu. Sléttan öll hefur einnig verið tilnefnd á náttúruminjaskrá, m.a. vegna fuglalífs. Mynd: Úr tillögu að matsáætlun

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar um tillögu Qair að matsáætlun kom fram að flokkun Melrakkasléttu sem mikilvægs fuglasvæðis byggi ekki aðeins á sjófuglabyggðum líkt og fullyrt væri í tillögunni. Þar séu einnig mikilvægir vetrar,- og viðkomu- og fjaðrafellisstaðir, auk mikilvægra varpsvæða fyrir himbrima og fálka. Báðar þessar tegundir verpa og/eða nýta svæðið við Hnotastein til fæðuöflunar.

Í ljósi þessa verði að gera ríkar kröfur til rannsókna á fuglalífi í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd. Stofnunin lagði í umsögn sinni til að þar sem Hnotasteinn væri á mikilvægu fuglasvæði og það nýtt af tegundum á válista, auk þess sem mikið af farfuglum leggi leið sína um þessar slóðir og að farleiðir væru ekki þekktar, yrði að gera ráð fyrir a.m.k. tveggja ára athugunum á fuglalífi með sjónarhólsathugunum sem nái yfir varptíma og fartíma vor og hausti.

Tífaldur munur á fjölda rjúpa á milli ára

Náttúrufræðistofnun benti ennfremur á að uppeldisstöðvar rjúpu væru á svæðinu og að rjúpur væru meðal þeirra fugla sem rannsóknir sýni að er sérstaklega hætt við að fljúga á hindranir. Um þessar mundir er stofninn í sögulegu lágmarki og því er frekar lítið af rjúpum við Hnotastein en allt að tífaldur munur getur verið á rjúpnamergð í hámarks- og lágmarksárum. Þá minnti stofnunin á að rjúpur væru mikið á ferli um dimmumótin og að þær athuganir sem Qair hyggðist fara í myndu ekki varpa ljósi á þýðingu svæðisins fyrir rjúpur utan varptíma.

Í svörum Qair kemur fram að framkvæmdaraðili telji ratsjármælingar vera bestu leiðina til að kanna atferli rjúpunnar í ljósaskiptum. Þó að aðferðin væri ekki gallalaus, t.d. þegar rjúpan flýgur lágt, þá teldi framkvæmdaraðili þessa aðferð henta betur en aðrar. Auk þess yrðu lagðar fram mótvægisaðgerðir í frummatsskýrslu eins og að mála hluta vindmylla.

Auglýsing

Qair hefur lýst því yfir að sú aðferðafræði sem stuðst er við til að rannsaka fuglalíf á svæðinu taki mið af leiðbeiningum Scottish Natural Heritage en eins og Náttúrufræðistofnun Íslands hefur bent á í sínum umsögnum um vindorkuver er ekki alfarið hægt að yfirfæra skoskar leiðbeiningar um þetta efni upp á aðstæður hér á landi, segir í ákvörðun Skipulagsstofnunar.

„Sú uppbygging sem hér er fyrirhuguð er án fordæma hér á landi, en þekkt er erlendis að vindorkuver geta haft mikil áhrif á fuglalíf,“ segir stofnunin. Þá séu almennt einnig til takmarkaðar upplýsingar um farleiðir fugla um Ísland. Hér eigi því við að leggja varúðarsjónarmið til grundvallar.

Í ljósi þess að ekki liggja fyrir sérstakar reglur eða leiðbeiningar um það hvernig standa skal að mati á áhrifum vindorkuvera á fuglalíf hér á landi, telur Skipulagsstofnun að rannsóknir þurfi að standa a.m.k. í tvö ár og spanna, auk varptíma, fartíma vor og haust. Rannsóknirnar þurfi að ná yfir allt framkvæmdasvæðið. „Upplýsa þarf um það hvaða fuglar verða helst í árekstrarhættu við vindmyllur og hver eru líkleg afföll þeirra.“

Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við ratsjármælingar en bendir á að bera þurfi niðurstöður þeirra undir stofnunina, sem muni í samráði við Náttúrufræðistofnun leggja mat á hvort þær kalli á frekari athuganir og mat á áhrifum á áflugshættu, áður en frummatsskýrslu er skilað.

Skipulagsstofnun segir að vindorkugarður á Melrakkasléttu myndi óhjákvæmilega breyta á sýnd á umfangsmiklu svæði sem beri lítil merki mannlegra athafna. Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Aðrir þættir sem Skipulagsstofnun leggur sérstaka áherslu á í ákvörðun sinni eru ásýnd lands og áhrif á samfélag, útivist og ferðamennsku. Stofnunin segir m.a. að vindorkugarður af þeirri stærðargráðu og fyrirhugaður er að Hnotasteini komi óhjákvæmilega til með að breyta ásýnd á umfangsmiklu svæði sem ber lítil merki mannlegra athafna og sýnileiki vindmyllanna kunni að hafa áhrif á upplifun ferðamanna og eins og Vatnajökulsþjóðgarður bendi á í umsögn sinni er þjóðgarðurinn í næsta nágrenni við fyrirhugað framkvæmdasvæði. Sjónræn áhrif vindmylla sé sá áhrifaþáttur sem er líklegur til að hafa mest áhrif á ferðaþjónustu og útivist.

Í frummatsskýrslu þurfi því að meta gildi og aðdráttarafl svæðisins með tilliti til ferðamennsku og útivistar, t.a.m. með viðhorfskönnunum eða viðtölum við ferðamenn, ferðaþjónustuaðila og íbúa á svæðinu. Slíkt mat þurfi að leggja til grundvallar mati á áhrifum á samfélag, útivist og ferðamenn. Fyrirliggjandi rannsóknir á viðhorfi til vindgarða þurfi að setja í samhengi við framkvæmdasvæðið. Þá þurfi að gera ráð fyrir að við matið verði tekið mið af sýnileikakorti og mati á áhrifum á landslag og ásýnd.

Aðalskipulagsbreyting í farvatninu

Fyrstu drög að breytingu aðalskipulags Norðurþings vegna hins fyrirhugaða vindorkuvers voru kynnt á íbúafundi á Kópaskeri um miðjan júní. Fulltrúar Qair kynntu verkefnið ásamt fulltrúum Eflu verkfræðistofu. Við skipulagsbreytinguna, sem endanlega verður mótuð á næstu vikum og mánuðum, er horft til þess að rúmlega 33 ferkílómetra svæði verði skilgreint sem iðnaðarsvæði og að þar megi byggja upp allt að fjörutíu vindmyllur.

Á heimasíðu Norðurþings segir að fundurinn hafi verið vel sóttur og að á honum hafi skapast „umtalsverðar umræður“ þar sem fram komu „ýmis sjónarmið“ sem horft verði til við framhald vinnunnar.

Hér er hægt að nálgast drögin að aðalskipulagsbreytingunni. Ef og þegar breytingarnar verða auglýstar verður lögum samkvæmt leitað umsagnar stofnana og fleiri aðila sem og almenningi gefið færi á að gera athugasemdir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent