Áforma 200 MW vindorkuver á einu helsta varpsvæði rjúpunnar á Íslandi

Vindorkuver Qair á Melrakkasléttu yrði innan alþjóðlega mikilvægs fuglasvæðis, á svæði sem tilnefnt hefur verið á náttúruminjaskrá og á flatlendri sléttunni og því sjást víða að.

Vindmyllur hafa farið hækkandi með árunum. Á Melrakkasléttu yrðu þær um 200 metra háar í hæstu stöðu. Á myndinni má sjá mann ganga innan um vindmyllur í Belgíu.
Vindmyllur hafa farið hækkandi með árunum. Á Melrakkasléttu yrðu þær um 200 metra háar í hæstu stöðu. Á myndinni má sjá mann ganga innan um vindmyllur í Belgíu.
Auglýsing

Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) getur ekki tekið undir þær staðhæfingar sem fram koma í tillögu fyrirtækisins Qair Iceland að matsáætlun fyrirhugaðs vindorkuvers á Melrakkasléttu um að staðsetningin hafi verið valin að teknu tilliti til fjarlægða frá náttúru- og menningarminjum, íbúabyggð og ferðamannastöðum. „Á Melrakkasléttu, Hólaheiði og innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis, eru margar merkar náttúruminjar og fyrirbæri er varða jarðminjar, fugla og vistgerðir. Svæðið er lítt raskað, þar eru miklar víðáttur og fjölbreytilegt landslag. Á svæðinu eru miklir framtíðarmöguleikar fyrir ferðamennsku og útivist,“ segir í ítarlegri umsögn stofnunarinnar við tillöguna.

Auglýsing

Orkuverið yrði innan alþjóðlega mikilvægs svæðis (IBA) fyrir æður, ritu, kríu, álku, lóm og himbrima á varptíma og á fartíma fyrir rauðbrysting, sanderlu, sendling og tildru. Strönd Melrakkasléttu er auk þess mikilvægur viðkomustaður farfugla á leið milli Evrópu og Grænlands/Kanada.

Þá hefur Náttúrufræðistofnun Íslands lagt til að Melrakkaslétta fari á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem á að njóta forgangs um friðlýsingu eða friðun á næstu árum. Melrakkaslétta er tilnefnd á skrána vegna ferskvatnsvistgerða, fjöruvistgerða og fugla.

Fyrirtækið Qair Iceland ehf. áformar að láta reisa allt að 200 MW vindorkuver innan 3.330 hektara lands á hinni flatlendu Melrakkasléttu og er verkefnið kennt við örnefnið Hnotastein. Gert er ráð fyrir að vindmyllurnar, sem yrðu um 34 talsins, verði reistar í tveimur áföngum. Framkvæmdasvæðið er innan sveitarfélagsins Norðurþings á Norðurlandi eystra. Nálægasta íbúabyggð er bóndabýli í 2,9 kílómetra fjarlægð og næsti þéttbýlisstaður er Kópasker, í um 6,5 km fjarlægð.

Qair Iceland ehf (áður Quadran Iceland Development ehf.) er dótturfélag franska fyrirtækisins Qair SA. Vindorkuverið á Melrakkasléttu var einn af þeim 34 virkjanakostum í vindorku sem bárust verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar. Af þeim voru níu á vegum Qair. Hins vegar mat stjórnin það svo að nægjanleg gögn hefðu aðeins fylgt fimm kostanna. Vindorkuver við Hnotastein var ekki þeirra á meðal.

Tappi í rammaáætlunarferli

Mikil stífla hefur myndast í rammaáætlunarferlinu þar sem þingsályktunartillaga að þriðji áfangi áætlunarinnar hefur enn ekki verið samþykkt á Alþingi, rúmlega fjórum og hálfu ári eftir að hún var fyrst lögð fram. Verkefnisstjórn fjórða áfanga náði svo, m.a. vegna þessara tafa, ekki að ljúka sinni vinnu. Öll kynning á tillögum hennar, sem birtar voru 30. mars er skipunartíma hennar lauk, er því enn eftir og lokaskýrsla, sem lögum samkvæmt á að afhenda umhverfisráðherra, ekki tilbúin.

Auglýsing

Orkustofnun hefur um árabil gert ágreining um það að rammaáætlun fjalli um hugmyndir að vindorkuvirkjunum líkt og þær sem nýta eiga vatnsafl og jarðvarma. Til að taka af vafa þar um kynnti umhverfisráðherra í upphafi árs drög að breytingu á lögum um rammaáætlun, svo að kveðið verði sérstaklega á um vindorku í lögunum og að hugmyndir að vindorkuverum, 10 MW eða meira að afli, heyri undir rammaáætlun.

Vegna þessarar óvissu sem skapast hefur er skipulagsferli nokkurra aflmikilla vindorkuvera þegar hafið hjá sveitarfélögum eða þau komin áleiðis í umhverfismatsferlinu líkt og það sem áformað er að reisa á Hólaheiði á Melrakkasléttu.

Vindorkuver falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og tillaga að matsáætlun er eitt fyrsta skrefið í slíku ferli. Kynningartíma tillögunnar er lokið en Skipulagsstofnun er enn að vinna í málinu.

Um 200 metrar á hæð

Vindmyllurnar 34 sem fyrirhugað er að reisa á Hólaheiði yrðu um 200 metra háar í hæstu stöðu og þvermál spaðanna 167 metrar. Þetta er þó meðal þeirra þátta sem enn eru óljósir þar sem ekki er búið að ákveða hvaða tegund yrði fyrir valinu. Undir hverri og einni vindmyllu þyrfti svo að vera um 30 fermetra steyptur grunnur. Þá er gert ráð fyrir að á framkvæmdasvæðinu verði lagðir nýir vegir, samtals um sautján kílómetrar að lengd. Við hverja vindmyllu yrðu vinnuplön fyrir krana, 160 metrar á lengd og 14 m á breidd.

Vindorkuverkefnið er kennt við örnefnið Hnotastein sem er á forni póstleið milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar. Mynd: Úr tillögu að matsáætlun

Náttúrufræðistofnun segir í umsögn sinni að í tillögu Qair að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkuversins að Hnotasteini sé ekki lagt mikið upp úr umhverfisáhrifum á jarðminjar. Bent er í því sambandi á að ætlunin sé að reisa orkuverið að mestu á nútímahrauni sem njóti sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Þar að auki séu stöðuvötn og tjarnir innan svæðisins sem einnig njóta verndar. Samkvæmt lögunum beri að forðast að raska þessum náttúrufyrirbærum nema að brýna nauðsyn beri til.

Stofnun vekur einnig athygli á því að ekki sé rétt hjá skýrsluhöfundum að flokkun hins alþjóðlega mikilvæga fuglasvæðis byggi aðeins á sjófuglabyggðum. Þar séu auk þess mikilvægir vetrar,- og viðkomu- og fjaðrafellisstaðir, auk mikilvægra varpsvæða fyrir himbrima og fálka sem verpa og/eða nýta svæðið við Hnotastein til fæðuöflunar. Þá eru þar mikilvægar varp- og uppeldisstöðvar rjúpu en þær eru meðal þeirra tegunda sem rannsóknir sýni að sé sérstaklega hætt við að fljúga á hindranir. „Í ljósi þessa verður að gera ríkar kröfur til rannsókna á fuglalífi í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd“ og leggur stofnunin til að minnsta kosti tveggja ára athuganir.

Víðernin einkenni Melrakkasléttu

Í athugasemdum SUNN – Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi segir að allan rökstuðning vanti í tillöguna fyrir þörf á að reisa 200 MW virkjun á Íslandi á næstu árum, hvað þá nokkrar slíkar. Í tillögu Qair kemur fram að vindorkuverið verði einungis reist „ef kaup á þeirri raforku sem þar verður framleidd eru tryggð“.

Á kortinu eru merkt inn svæði sem njóta sérstakrar verndar á Melrakkasléttu. Sléttan öll hefur einnig verið tilnefnd á náttúruminjaskrá, m.a. vegna fuglalífs. Mynd: Úr tillögu að matsáætlun

Ferðaþjónustusamtökin Norðurhjari benda á að ósnortin víðerni séu eftirsótt meðal ferðamanna og eitt af því sem einkenni Melrakkasléttu „Með vindorkugarðinum er stóru ósnortnu víðerni raskað og möguleikar ferðamanna og íbúa til að njóta þess minnka verulega þar sem áhrifa og sjónmengunar gætir á stóru svæði.“

María Hrönn Gunnarsdóttir frá Kópaskeri segir í sinni athugasemd ríka ástæðu til að framsetning virkjanahugmyndarinnar sé gagnsærri svo íbúar eigi þess kost að meta ávinning sveitarfélagsins á móti þeirri röskun sem hlýst af framkvæmd og rekstri vindorkuversins. Hún fjallar um 200 metra hæð vindmyllanna og rifjar til viðmiðunar upp að Hallgrímskirkjuturn sé 74 metrar og því „rétt rúmlega þriðjungur hámarksstærðar hverrar vindmyllu í hæstu stöðu“. Vindmyllurnar yrðu „gríðarstórar“ og myndu sjást víða að frá láglendri Melrakkasléttunni.

Mælingar í dag segja ekkert til um framtíðina

Gunnar Einarsson, sem á land að fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, vekur sérstaka athygli á fuglalífinu í sinni athugasemd. Hann bendir á að fyrir árið 1950 hafi verið „feykimikið“ af rjúpu á þessum slóðum. „Þegar við komum hingað 1982 var miklu minna af henni en samt verulegur fjöldi. Þarna á heiðinni þar sem vindmyllugarðurinn á að rísa, voru oft margir hópar með hundrað rjúpum eða meira. Núna hefur stofninn hrunið. Fálkum hefur líka fækkað enda rjúpan aðalfæða hans.“ Hann skrifar svo að mælingar sem gerðar eru í dag segi ekkert til um stofnstærð í framtíðinni. „Vindmyllurnar yrðu „gríðarstór“ mannvirki sem myndu breyta upplifun af landinu langt út fyrir landamerki jarða sem þær rísa á. Vindorkuverið yrði „hættulegur fuglum, algjörlega óþarfur til að framleiða þá orku sem við þurfum og myndi valda mjög mikilli umhverfisröskun og allt að óþörfu.“

Í miðju kortsins er framkvæmdasvæðið fyrirhugaða og litirnir tákna hversu margar vindmyllur munu sjást frá ákveðnum stöðum. Fjólibláu litnir tákna flestar myllur. Mynd: Úr tillögu að matsáætlun

Í umsögn Veðurstofunnar er bent á að í tillögunni sé ekkert fjallað um vindafar né aðra þætti veðurfars nema að mjög stuttlega sé minnst á mælingar á vindi. Þá skorti umfjöllun um náttúruvá, s.s. aftakaveður og jarðskjálfta.

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga segir í sinni umsögn að í tillögunni komi fram að framkvæmdaaðili hyggist endurmeta flokkun svæðisins sem alþjóðlega mikilvægs fuglasvæðis. „Það er varla í verkahring framkvæmdaaðila að endurmeta flokkun svæðisins á þann hátt. Innlendar fagstofnanir þar sem starfa innlendir líffræðingar og fuglafræðingar eru mun betur til þess fallnar.“

Bendir nefndin á að Melrakkaslétta sé eitt helsta varpsvæði rjúpu á Íslandi og að hún, auk stærri fugla á borð við himbrima, lóm og fálka, sé sérstaklega viðkvæm fyrir áflugi á vindmyllur.

Vindorkuver á Hólaheiði á Melrakkasléttu mun hafa gríðarleg áhrif á landslag og ásýnd svæðisins og valda mikilli sjónmengun, bæði á byggðu og óbyggðu svæði, segir ennfremur í umsögn nefndarinnar. „Melrakkasléttan er flatlend og er flatneskjan eitt að staðareinkennum svæðisins og um leið eitt helsta aðdráttarafl þess með tilliti til ferðaþjónustu.“

Auglýsing

Þá sé Hólaheiði nyrsti hluti af stærsta víðernissvæði landsins utan víðerna miðhálendisins. „Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Melrakkasléttu, í Þistilfirði og á Langanesi en þar hefur meðal annars verið lögð áhersla á fuglatengda ferðaþjónustu auk annarrar náttúrutengdrar ferðaþjónustu. [...] Vindmyllur á svona stóru svæði á Hólaheiði myndu sjást langt að og hafa veruleg neikvæð áhrif á útsýni og upplifun ferðamanna sem heimsækja svæðið.“

Á þessu stigi er óvíst hvenær framkvæmdir við uppsetningu vindorkuversins að Hnotasteini gætu hafist, segir í tillögu Quar. Gert ráð fyrir að framkvæmdir muni í heildina taka um 12 mánuði sem líklega myndu dreifast yfir tveggja ára tímabil. Að því loknu er áætlað að rekstur vindorkugarðsins geti hafist og standi yfir í að minnsta kosti 25 ár.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar